145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur kærlega að beina þessum spurningum til mín. Mér er bæði ljúft og skylt að svara þeim. Eins og hún minntist á er það mín niðurstaða, sérstaklega í ljósi þess að stjórnmálamenn eru náttúrlega ekki blindir heldur eiga þeir að vera í góðu sambandi við þjóð sína, að yfir 80 þúsund manns hafa skrifað upp á ákall til stjórnvalda um að endurreisa heilbrigðiskerfið og á þessar raddir eigum við að hlusta, að sjálfsögðu.

Ég þekki það af eigin reynslu að ekki er verið að leggja nóg í heilbrigðiskerfið þrátt fyrir að við höfum gefið hressilega í frá því að þessi ríkisstjórn tók við. En við verðum að vera sammála um að vera ósammála, ég tel að hækkun á sköttum sé ekki leiðin til að bjarga málum. Ég vil miklu frekar forgangsraða öðruvísi í ríkisrekstrinum. Ríkissjóður er ekki botnlaus hít. Ekki viljum við heldur skuldsetja okkur meira en orðið er því um 80 milljarðar fara í vexti á ári sem væri gott að geta notað í heilbrigðiskerfið. Fyrsta mál á dagskrá er að greiða niður skuldir þannig að við getum notað vextina til að byggja upp velferðarkerfið.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Herjólf og jarðgöng en ég nefndi það nú bara sem dæmi. Ég var aðallega að kalla eftir breiðri sátt meðal okkar stjórnmálamanna og þjóðarinnar allrar um hvaðan þessir peningar kæmu þannig að við eyðileggjum ekki fyrir þessum góðu fyrirheitum með því að geta ekki komið okkur saman um hvernig við eigum að fjármagna endurreisnina. Ég vil til dæmis minna á að fyrir nokkrum dögum kom fram í fréttum að vegna mjög góðs rekstrar mun Landsvirkjun skila (Forseti hringir.) milljarðatuga arði til eigenda sinna á næstu árum. Það mætti til dæmis taka það fjármagn til uppbyggingarinnar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna