145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir (P):

Herra forseti. Mikilvægi þess að allir landsmenn hafi aðgang að sálfræðiþjónustu án tillits til efnahags hlýtur að vera óumdeilt, en ljóst er að þessi mikilvæga þjónusta stendur alls ekki öllum þjóðfélagshópum til boða í dag. Kollegar mínir í stétt sálfræðinga hafa af þessu miklar áhyggjur.

Vikið er að þessum vanda í tillögum hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Ólík sjónarmið hljóta þó að vera uppi um hvort nóg sé að gert. Í tillögunni segir meðal annars að í framkvæmd hennar verði sjónum sérstaklega beint að börnum og unglingum. Til stendur að skima fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla á meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veita viðeigandi meðferð. Þetta er mikilvægt skref, enda eru tækifærin til að efla geðheilbrigði og fyrirbyggja geðrænan vanda mest í barnæsku og fram á fullorðinsár.

Í tillögunni er ekkert vikið að sérstökum aðgerðum í þágu þeirra ungmenna sem lokið hafa grunnskóla og stunda nám við framhaldsskóla. Unglingsárin er tími mikils umróts enda eiga margþættar þroskabreytingar sér stað við það að breytast úr barni í fullorðinn einstakling. Unglingar verja miklum tíma í skólanum og því má segja að hann gegni ákveðnu lykilhlutverki í lífi þeirra.

Nú er vitað að brottfall úr framhaldsskólum er ekki síst vegna einhvers konar geðrænna erfiðleika nemenda. Brottfall ungmenna úr framhaldsskólum hefur margvíslegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Þar má nefna tapaðar þjóðartekjur, minni skatttekjur, meiri þörf fyrir félagslegan stuðning og verra heilsufar.

Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar, fyrir að vilja ræða þetta við mig. Ég mundi vilja heyra hennar sjónarmið um þessa þætti sem ég nefndi og hvort þetta hafi komið til sérstakrar umræðu í velferðarnefnd.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna