145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurbjörgu Erlu Egilsdóttur fyrir að eiga orðastað við mig í dag um geðheilbrigðismál.

Sú þingsályktunartillaga um geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt fram hefur vakið gríðarlegan áhuga og við höfum fengið inn fjölda umsagna enda er þörfin mikil. Viðbrögð hafa almennt verið jákvæð en flestir hafa bent á að mun meira þurfi að koma til og þetta séu jákvæð fyrstu skref.

Þá hefur Ríkisendurskoðun bent á að það þurfi að skipuleggja betur hina svokölluðu annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni og skilgreina þurfi viðunandi biðtíma eftir þjónustu fyrir börn.

Í þeim umsögnum sem við höfum fengið og heimsóknum hefur verið mjög mikil ánægja með að það eigi að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar. Jafnframt hefur verið bent á að það þurfi miklu fleiri en lagt er upp með en nóg sé til af vel menntuðum sálfræðingum hér á landi, staðan sé góð að því leyti, þannig að auðvelt verði að fjölga þeim innan heilbrigðiskerfisins.

Það er líka bent á að mikil þörf er fyrir geðheilbrigðisþjónustu en fyrir mjög marga mundi duga tiltölulega lítið inngrip ef nógu snemma er gengið í málið.

Þá komum við að ungmennunum og ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög nauðsynlegt að auka aðgengi framhaldsskólanema að sálfræðiþjónustu. Það vill þannig til að ég er rétt við það að fara að senda út og óska eftir meðflutningi á tillögu um sálfræðiþjónustu við framhaldsskólanema í skólunum þeim að kostnaðarlausu. Ég vona að það verði í þessari viku þannig að hv. þingmaður geti orðið meðflutningsmaður að henni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna