145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sjálfsagt hafa engum dulist þær deilur sem ríkt hafa innan þingflokks Pírata upp á síðkastið enda hafa þær deilur fengið þó nokkra fjölmiðlaumfjöllun, sem er gott og blessað. Í gær sendi þingflokkur Pírata út yfirlýsingu um að við hefðum ráðið vinnustaðasálfræðing til að hjálpa okkur að starfa saman þrátt fyrir ýmsan þann ágreining sem viðgengst undir miklu álagi og í fordæmalausri stöðu.

Þetta tiltæki okkar hafði spurst út í fjölmiðlum einhverju fyrr, en við höfðum neitað að svara fyrir það í fjölmiðlum vegna þess að það er ákveðin þjónusta í samfélaginu sem fólk á að geta sótt sér án þess að þurfa að svara fyrir það. Fólk á að geta leitað til lögfræðings án þess að svara fyrir það. Fólk á að geta leitað til sálfræðings án þess að svara fyrir það og sótt sér aðra læknisþjónustu án þess að svara fyrir það.

Í gær ákváðum við að gefa út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að við höfum kosið að nýta okkur þessa þjónustu vinnustaðasálfræðings, enda hefur það þegar gert mikið gagn á mjög skömmum tíma. Nú skil ég mætavel að fólk geri grín að ágreiningi okkar og hneykslist á því að hann eigi sér stað í fjölmiðlum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að gegnsæið sé betra en feimnin til lengri tíma. En það sem mér blöskrar hins vegar, verð ég að segja, er að sjá að því að við höfum fengið til liðs við okkur vinnustaðasálfræðing sé tekið sem merki um það hversu mikið sé að hjá okkur, hversu hræðilega slæmt ástandið hljóti að vera.

Virðulegi forseti. Það er öfugt. Það er merki um bata. (BirgJ: Heyr, heyr.) Það er ekki tabú að sækja sér sérfræðiaðstoð af slíku tagi. Það er algerlega sjálfsagt. Jafnvel heilbrigt fólk ætti að kíkja til sálfræðings af og til, að mínu mati, af sömu ástæðu og það er hollt að fá álit sérfræðings á líkamlegri heilsu af og til. Sálfræðiþjónusta, jafnvel fyrir fullkomlega heilbrigt fullorðið fólk, er ekki tabú. Við erum ekki tabú. (BirgJ: Heyr, heyr.)