145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hratt flýgur stund. Það var fyrir rétt um fimm árum síðan, eða 29. mars 2011, sem ég ásamt öðrum þingmönnum í þáverandi hv. iðnaðarnefnd þingsins skrifaði undir sameiginlegt nefndarálit vegna laga um verndar- og nýtingaráætlun um virkjunarkosti. Það eru rétt um fimm ár síðan. Þetta var gert eftir langa vinnu í nefndinni þar sem menn lögðust á eitt um að ná samstöðu, stjórnarminnihluti með meiri hluta. Þannig var niðurstaðan í nefndinni. Þá var ég í minni hluta og ég skrifaði án athugasemda undir nefndarálitið ásamt öðrum þingmönnum.

Það er auðvitað sorglegra en tárum taki að málsmeðferð síðar á því kjörtímabili hjá þáverandi hæstv. umhverfisráðherra auk samráðherra hennar hafi orðið til þess að rjúfa þá góðu sátt sem alþingismenn höfðu lagt sig fram um að ná saman um í þessari vinnu. Öllu var snúið á hvolf eftir þá samstöðu og við þekkjum þá sögu.

Ég geri ráð fyrir að enginn hafi reiknað með því að fimm árum eftir að þessi lög voru samþykkt stæðum við í nákvæmlega sömu sporum og þá. Það hefur ekkert þokast áfram og illvígar deilur eru mjög áberandi í allri umræðunni.

Það má segja að ekki hafi verið farið eftir þeirri niðurstöðu sem nefndin komst að, né öðrum atriðum sem þar er fjallað um, að ekki hafi verið farið eftir þeim góða huga sem í lögunum er að finna. Það er því óhætt að taka undir með þeim, að skýrar reglur í anda laganna séu forsenda sáttar, og því er endurskoðun á verklagi verkefnisstjórnar mjög mikilvæg af hálfu hæstv. umhverfisráðherra núna.

Deilur og ómálefnaleg umræða um uppbyggingu raforkuframleiðslu og dreifikerfis raforku eru að verða okkur dýrar. Það birtist okkur með margvíslegum hætti, ekki síst í hinum dreifðu byggðum.

Sjávarútvegur og landbúnaður munu ekki gegna því hlutverki í byggðafestu sem þessar atvinnugreinar hafa byggt á síðustu áratugum. Þær greinar munu ekki gegna því hlutverki ef við horfum 10, 15 ár fram í tímann, eitthvað nýtt verður að koma til, virðulegur forseti. Ferðaþjónustan mun gera það á takmörkuðum svæðum landsins en annars staðar er ekkert augljósara en orkan til þess að svara því kalli. Sveitarfélög í dag búa alls ekki við sömu skilyrði. Það er eingöngu suðvestanlands og á Norðausturlandi í kringum Þeistareyki þar sem mögulegt er í dag að setja niður fjölbreytta atvinnustarfsemi, smáatvinnustarfsemi sem byggir á takmarkaðri orkunýtingu. Við erum ekki að tala um neina stóriðju, álver, eins og oft er reynt að snúa þessari umræðu yfir í. Við erum að tala um fyrirtæki sem þurfa 5–50 megavött.

Það hefur komið fram á fundum hv. atvinnuveganefndar undanfarið að það eru fjölmörg tækifæri þar sem sveitarfélög hafa þurft að láta verkefni frá sér vegna þess að dreifikerfi raforku og raforkuframleiðsla er þannig að við getum ekki svarað því kalli. Vegna deilna hefur ekki verið hægt að fara í aðgerðir til uppbyggingar í meginflutningskerfi í sjö til átta ár. Og við þekkjum öll hvernig staðan er í orkuframleiðslunni.

Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það verða minni og fjölbreyttari kaupendur að raforku, sem er sóknarfæri fyrir landsbyggðina, og það er mín skoðun að stjórnvöld eigi að hafa það að stefnu að sem flest störf tengd orkunotkun verði staðsett á landsbyggðinni.

Vegna ákvarðana á síðasta kjörtímabili stöndum við frammi fyrir því, virðulegi forseti, að það munu líða um tíu ár frá því ákvarðanir voru teknar um lög um rammaáætlun þar til eitthvað fer mögulega að gerast. Það birtist okkur í gríðarlegu tjóni fyrir samfélagið allt.

Við höfum mörg rætt mjög spennandi kost í orkutengdri starfsemi sem er verksmiðja Silicor á Grundartanga, mengunarlaus verksmiðja sem notar um 80 megavött, skapar um 450 störf, útflutningsverðmæti er um 100 milljarðar á ári. Nú berast sögur af því að forsvarsmenn þessa verkefnis séu að fara til Noregs og Danmerkur til þess að ræða um staðsetningu verksmiðjunnar þar vegna þess að raforkusamning er ekki að hafa á Íslandi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að gríðarlegt tjón er á ferðinni fyrir samfélagið vegna þess að það hefur sýnt sig að alls staðar þar sem þessi verkefni hafa skotið rótum hafa þau treyst byggðafestu, skapað (Forseti hringir.) fjölbreytta atvinnustarfsemi, fjölbreyttari störf og borgað góð laun með traustri starfsemi sinni.