145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þarf að framleiða meira rafmagn? Og þá fyrir hvers konar starfsemi?

Ég tel að tími stóriðjuframkvæmda sé liðinn og nú verði að horfa til eftirspurnar frá smærri iðnfyrirtækjum, fiskvinnslu, ferðaþjónustu, gagnaverum og öðrum umhverfisvænni verkefnum auk þess að tryggja raforkuöryggi landsmanna. En stóra verkefnið er að nútímavæða raforkuflutningskerfið í landinu sem víða er komið til ára sinna og hamlar atvinnuuppbyggingu og afhendingaröryggi rafmagns. Það er víða fyrir neðan allar hellur eins og við Vestfirðingar þekkjum og á norðausturhorninu og fleiri stöðum. Skagfirðingar hafa óskað eftir fundi um afhendingaröryggi rafmagns og það er stór fundur á Ísafirði um framtíðarsýn í raforkumálum í næstu viku.

Á Vestfjörðum þarf að styrkja og endurnýja flutningskerfið og koma á hringtengingu eins og hæstv. ráðherra minntist á til þess að auka afhendingaröryggið. Þar hefur verið skoðaður kostur, Hvalárvirkjun, og verður forvitnilegt að vita hvort það verkefni verði að veruleika.

Lítil flutningsgeta raforku er víða vandamál á landsbyggðinni. Byggðalínan í kringum landið er víða komin til ára sinna með gömlum tréstauralínum sem þola illa óveður. Það er brýnt að hraða endurnýjun hennar og auka flutningsgetuna og bjóða upp á umhverfisvænar og hagkvæmar lausnir til lengri tíma með auknu vægi jarðstrengja í jörðu.

Endurnýjun flutningskerfisins og aukin flutningsgeta tel ég vera eitt brýnasta verkefnið fram undan. Það er til næg orka í landinu og brýnt er að unnið sé eftir rammaáætlun. Stóra málið er auðvitað hvernig raforkan er nýtt og kerfisáætlun er það verkefni sem við ætlum að nota til þess að ákvarða framtíðarlínulagningu í landinu. (Forseti hringir.) Vonandi verður hægt að koma í veg fyrir að lögð verði lína um miðhálendi landsins.(Gripið fram í: Heyr.)