145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:33]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Loftslagsmál eru mikið í umræðunni í dag. Við Íslendingar státum okkur af því að búa í landi sem auðugt af grænni orku og grænum auðlindum. Flestir fiskstofnar standa vel þótt enn sé óvissa með loðnuna og þær veiðar mættu ganga getur. Vatnsbúskapurinn stendur vel og góðar horfur fyrir rafmagnsframleiðslu á næstunni. Það er því dapurlegt að upplifa að þrátt fyrir að fiskimjölsverksmiðjur á landinu hafi lagt í margra milljarða kostnað til að bræða aflann með rafmagni í stað olíu nota þær olíu í dag og loðnuvertíð í hámarki, í stað þess að nýta fjárfestingu sína og nýta græna orku, sem er rafmagn, vegna þess að flutningskerfið er ekki nógu öflugt.

Árið 2009 fóru fiskimjölsverksmiðjurnar í mikið átak í samráði við stjórnvöld og fleiri sem kostaði verksmiðjurnar nokkra milljarða. En hvað hefur gerst síðan? Að vísu er olíuverð á heimsmarkaði mjög lágt en það breytir ekki þeirri staðreynd að raforkuverð til þessara aðila hefur hækkað um meira en 200% og er staðan þannig í dag að verksmiðjurnar neyðast til að flytja inn olíu til verksins. Á meðan Landsvirkjun státar af nærri 17 milljarða hagnaði og því að eiga orku í kerfinu flytjum við inn olíu.

Landsnet hefur hækkað flutningskostnað til þessara notenda um nærri 250% á meðan þeir hækka aðra um 20%. Það gerist þrátt fyrir að um ótryggan flutning sé að ræða sem þýðir að ef ekki er pláss í flutningskerfinu fá þeir ekki rafmagn. Landsvirkjun hefur hækkað rafmagn til þessara aðila um 190% á sama tímabili þrátt fyrir að geta lokað fyrir raforkusöluna með einu símtali, en verksmiðjurnar eru þannig gerðar að þær eru fljótar að skipta yfir á olíu. Aðrir kostnaðarliðir sem mynda endanlegt rafmagnsverð hafa hækkað minna, svo sem dreifikostnaður um 40%.

Er ekki eitthvað að hjá okkur þegar fyrirtæki í eigu ríkisins verðleggja orkuna og flutning hennar af þessum markaði sem verður svo til þess að við þurfum að flytja inn olíu? (Forseti hringir.)

Við sem byggjum þetta land við förum fram á að það verði ekki aðeins talað um loftslagsmál (Forseti hringir.) heldur eitthvað gert í þeim. Ég skora á ráðherra að (Forseti hringir.) koma loftslagsmarkmiðum inn í eigendastefnu þessara fyrirtækja.