145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það er mikilvægt að eiga samtal.

Ég verð að taka undir þau orð hans að það hefur verið of mikið um ómálefnalega umræðu og deilur þegar þessi mál eru rædd. Við eigum að geta rætt þau á yfirvegaðan hátt.

Það sem ég hef áhyggjur af er að nú stöndum við í sömu sporum og við stóðum í upphafi kjörtímabilsins vegna þess að hér er eftirspurn eftir raforku og við erum með of marga landsmenn og of mörg svæði sem búa ekki við raforkuöryggi. Í því samhengi vil ég minnast á að það er mikilvægt að tryggja raforkuöryggi hér á landi til uppbyggingar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, til heimila landsins og til alls konar mála. Við þurfum meðal annars að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og víða um landið. Það þarf að huga að því hvernig við getum leitt rafmagn frá nýrri virkjun í Hvalá beint í Ísafjarðardjúp og ljúka þannig hringtengingu um Vestfirði og færa þau mál til nútímans til að Vestfirðir geti búið við sömu tækifæri og aðrir vegna atvinnuuppbyggingar.

Ég verð jafnframt að lýsa þeim áhyggjum sem ég hef af þeirri stöðu sem uppi er á Grundartangasvæðinu, sem komin er upp í raforkumálum milli Landsvirkjunar, Elkem á Grundartanga og Norðuráls og þeirri stöðu sem upp er komin vegna fyrirhugaðra áforma um verksmiðju Silicor, umhverfisvæna stóriðju á Grundartangasvæðinu sem býður upp á 400 störf og fjölda afleiddra starfa. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvað stóriðjan á Grundartanga hefur gert mikið fyrir sveitarfélögin vestan Hvalfjarðarganga og öll þau störf sem skapast hafa í kringum hana.

Mig langar hér í lokin að skora á hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að setjast niður með öllum hlutaðeigandi aðilum og reyna að ræða sig niður á málin til að tryggja raforkuöryggi í landinu svo að við missum ekki af mikilvægum tækifærum og allir landsmenn búi við raforkuöryggi og þriggja fasa rafmagn.