145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek undir að það er mjög margt gott í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Hins vegar er þar ekkert talað um þá leið sem þingmaðurinn fer inn á varðandi það að draga sektir og sakarkostnað frá launum, bara þannig að það sé alveg skýrt. Ég veit að þingmaðurinn veit það.

Ég get alveg sagt það sem mína persónulegu skoðun að ég hefði viljað sjá frumvarpið ganga lengra í þá átt. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem ráðuneytið kom með inn í nefndina. Ráðuneytið kom að þeim sjónarmiðum að þessi langtímaáætlun og stefnumótun væri í smíðum og að sú vinna tæki jafnframt á þessu.

Ef ekki á að fara í launaafdrátt, hvaða aðrar leiðir vill ráðuneytið þá fara? Okkur þótti of stórt skref að þessu sinni að fara í svo viðamiklar breytingar á innheimtunni án þess að það færi í umsagnir á vegum ráðuneytisins fyrst, vegna þess að hér er um mikið inngrip að ræða.

Við þekkjum það að þeir sem beita þessum úrræðum, til dæmis Innheimtustofnun sveitarfélaga, mótmæla því harðlega. Við sáum það meðal annars fyrir utan Alþingishúsið í dag.

Að öðru leyti skil ég vel að þingmaðurinn hreyfi þeirri hugmynd að fresta afgreiðslu málsins og taka fleiri þætti inn. En frumvarpið felur þrátt fyrir allt í sér miklar réttarbætur á ýmsum sviðum, til dæmis varðandi fjölskylduleyfi og fleira. Þess vegna er mikilvægt að afgreiða það og taka þá frekar inn þær breytingar sem ég talaði um þegar nefndin sem vinnur þær hefur lokið störfum og jafnframt sá starfshópur (Forseti hringir.) sem við leggjum hér til að skili af sér í október.