145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst álit minni hluta um margt áhugavert. Eins og fram hefur komið eru kannski ýmis atriði þar sem öll nefndin er sammála um. En eins og framsögumaður meiri hluta gerði grein fyrir þá eru þarna atriði sem þarfnast einfaldlega meiri stefnumótunar og meira samráðs til að hægt sé að fara út í breytingar að svo stöddu. Mig langar að beina þeirri spurningu til framsögumanns minni hluta hvernig hann telji að langtímastefnumótun um betrun væri best háttað. Hvaða aðila þyrfti að fá að því borði, hvaða stofnanir sem tengjast innanríkisráðuneytinu, en líka aðra aðila í samfélaginu, t.d. frá heilbrigðisþjónustunni og hvernig þarf að tengja þetta við menntakerfið o.s.frv.?

Mig langar einnig að spyrja um meðferðaráætlanir. Ég tel meðferðaráætlanir afskaplega mikilvægar og get tekið undir það að eðlilegt væri að þær hétu betrunaráætlanir þegar betrunarstefnan væri orðin skýrari. En er það álit framsögumanns að það séu engin tilfelli þar sem meðferðaráætlun sé óþörf? Væri hann til í að gera skýrari grein fyrir því ef um einhverjar undantekningar væri að ræða varðandi meðferðaráætlanir?