145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fangelsismál og fullnusta dóma, sem er í þessu frumvarpi nefnd fullnusta refsinga, er margþættur málaflokkur og vandmeðfarinn því að hann snertir ákveðin grunngildi, samfélagsleg og siðferðileg, mannréttindi, stjórnsýslu og dómaframkvæmd. Þess vegna er mikilvægt að löggjöf um þennan málaflokk byggist á langtímastefnumótun og framtíðarsýn, þ.e. að horft sé hátt og vítt en ekki þröngt og skammt.

Í því frumvarp sem er til umræðu um fullnustu refsinga er í rauninni ekki byggt á djúpri stefnumótunarvinnu, eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans, heldur miklu frekar því að bregðast þurfi við takmörkuðum fjármunum eða fjárskorti sem þessi málaflokkur hefur mátt þola.

Það er samfélagið sem á mestra hagsmuna að gæta og þess vegna er mikilvægt að vanda til verka þegar lögð er fram heildarlöggjöf eins og sú sem við erum með til umræðu.

Nú hefur hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjallað um þetta mál um alllanga hríð og það hefur í sjálfu sér verið ágætisstarf í nefndinni. Þangað hefur komið fjöldi gesta. Það hafa átt sér stað málefnalegar umræður og fólk hefur ekki hlaupið í neinar flokksgryfjur heldur reynt að leggja þessu mál gott til eftir fremsta megni, bæði stjórnarmeirihluti og stjórnarandstaða. Þess vegna er það svo að við í minni hluta allsherjarnefndar leggjumst ekki gegn frumvarpinu, því að við teljum að þar sé ýmislegt til bóta og ýmsar breytingar auk þess lagðar til af meiri hlutanum sem við álítum að horfi til betri vegar. En það er engu að síður ákveðinn afstöðumunur milli meiri hluta og minni hluta í hv. allsherjarnefnd og sá afstöðumunur grundvallast á grunnhugtökunum refsingu og betrun.

Okkur finnst lítið fara fyrir betrunarmarkmiðunum í frumvarpinu. Til dæmis kemur orðið betrun þar hvergi fyrir. Ég lét það eftir mér að telja og eins og kemur fram í nefndarálitinu kemur orðið þrisvar sinnum fyrir í greinargerð. Greinargerðin er 41 blaðsíða þannig að það er ekki mikil áhersla á betrunarþáttinn. En það er þeim mun meiri áhersla á það sem er orðað í greinargerð frumvarpsins sem varnaðaráhrif refsinga. Þarna liggur verulegur afstöðumunur.

Þess vegna hefur minni hluti nefndarinnar lagt fram allmargar breytingartillögur við frumvarpið þar sem betrunin er tekin inn í ýmis ákvæði, bæði í sýnd og reynd skulum við segja. Hún er tekin inn í 1. gr., 2. gr., 21. gr. og 24. gr. Í 2. gr. er hugtakið skilgreint samkvæmt tillögu okkar og við teljum rétt að skilgreina hugtakið betrun þannig að það feli í sér leið til að auka færni og lífsgæði einstaklings með það að markmiði að sporna gegn frekari brotum og endurkomum í fangelsi.

Það er auðvitað margsannað mál og margar rannsóknir í nágrannalöndum sem sýna að betrunarstefna skilar ótvíræðum samfélagslegum árangri, ekki síst fyrir samfélagið sjálft en sömuleiðis fyrir framtíð þeirra sem afplána dóma. Betrun er liður í aðlögun að samfélaginu eftir að afplánun lýkur. Hún er liður í því að draga úr glæpatíðni og fækka endurkomum þannig að hið samfélagslega gildi af þeirri stefnu er ótvírætt.

Þetta sannaðist eða kom fram á málþingi sem nýlega var haldið í Norræna húsinu og var gert að umtalsefni í máli fyrri ræðumanns, þ.e. annars vegar það að aukin endurhæfing fanga dragi úr glæpatíðni og endurkomu í fangelsi, en líka að hefja þurfi aðlögun fanga að samfélaginu innan veggja fangelsisins áður en afplánun þeirra lýkur. Þarna var tækifæri fyrir frumvarpshöfunda til að taka þetta inn, því að í við teljum að taka megi til greina tækifæri í yfirstandandi endurskoðun á heildarlöggjöfinni um fullnustu refsinga. Þarna fór gott tækifæri til að móta skarpari stefnu að þessu leyti forgörðum.

Frumvarpið færir líka auknar valdheimildir og eftirlitsheimildir til kerfisins á kostnað friðhelgi einkalífs og mannréttinda fanga og aðstandenda þeirra. Okkur finnst þetta frumvarp í raun og veru þjóna kerfinu að mörgu leyti betur en til dæmis föngum og samfélaginu í framhaldi af því. Meðal annars er kveðið á um bakgrunnsathuganir gesta í fangelsum og leit í klefum fanga án viðveru fangans og við teljum að í þessu sambandi þurfi að gæta mjög vel að samhengi við stjórnarskrárvarinn rétt til að njóta friðhelgi einkalífs og samhengi við aðra löggjöf, m.a. í nágrannalöndunum.

Ég vil í því sambandi líka geta þess að í 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins er til dæmis kveðið á um að heilbrigðisstarfsfólki sé skylt að upplýsa fangelsisyfirvöld um sjúkdóma eða heilsufarslegt ástand fanga sem gæti varðað öryggi þeirra og heilsu annarra. Við leggjum til að þetta sé fellt brott, enda teljum við að þetta fari ekki saman við lögbundna þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna eins og kveðið er á um hana í 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Það má geta þess að landlæknir hefur í umsögn sinni vakið athygli á skyldu heilbrigðisstarfsfólks til að bregðast við vegna upplýsinga sem gætu varðað öryggi og heilsu annarra í sóttvarnalögum. Embættið telur að sú lagaheimild hafi nægt hingað til í því sambandi og þar af leiðandi sé þetta ákvæði óþarft. Við tökum undir það.

Við leggjum líka til að gefnu tilefni nýja grein, sem yrði þá 42. gr. í þessu frumvarpi, um að kveðið sé á um mannúðlegar aðstæður í fangelsum og settar fram kröfur um hreinlætisaðstæður, stærð klefa, loftræstingu, hitun og fleira í þeim dúr. Við vekjum líka athygli á því sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur vakið athygli á í umsögn sinni, að rétt sé að hafa ákvæði í lögum sem leggur bann við mismunun og það mun þá vera í samræmi við 13. gr. evrópsku fangelsisreglnanna. Við leggjum til þá breytingu að slíkt ákvæði sé tekið inn, þ.e. að lögin gildi án nokkurrar mismunar, hvort sem það er á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, litarháttar, trúar, lífs- eða stjórnmálaskoðunar, fötlunar o.fl.

Eins og fram hefur komið er eitt og annað jákvætt í frumvarpinu, t.d. þar sem kveðið er á um möguleika til afplánunar undir rafrænu eftirliti. Við teljum að vísu að gera þurfi breytingar á skilyrðunum sem tengjast þessum möguleika, en hann er jákvæður engu að síður. Við teljum líka jákvætt að auka möguleika á samfélagsþjónustu en tökum undir með ýmsum umsagnaraðilum varðandi það að samfélagsþjónusta þurfi og eigi að vera dómstólaúrræði. Núna er samfélagsþjónusta umbunarúrræði sem fangelsismálayfirvöld hafa gagnvart föngum sem sýna góða hegðun og rísa undir væntingum. Við erum í sjálfu sér ekkert mótfallin því að samfélagsþjónusta sé að hluta til umbunarúrræði fangelsisyfirvalda eins og nú er, en við teljum óeðlilegt að hún sé eingöngu slíkt fullnustuúrræði en ekki dómstólaúrræði. Hún þyrfti að minnsta kosti að vera hvort tveggja. Í öllu falli er óeðlilegt annað en að dómstólar geti beitt þessu úrræði. Á þetta bentu fjölmargir umsagnaraðilar með góðum rökum sem full ástæða er til að taka alvarlega.

Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til ágætar breytingar um fjölskylduleyfi og vinnu og nám utan fangelsisins. Við höfum engar athugasemdir við þær en bendum á að úrræði af þessu tagi ættu samt frekar að miðast við góða hegðun og framfylgd meðferðar og vistunaráætlunar heldur en við brotaflokka. En það eru líka vankantar, eins og ég hef komið inn á nú þegar, t.d. finnst okkur að fyrir utan skort á stefnumótun gæti ákveðinnar uppgjafar fyrir betrun. Til að mynda sú staðreynd að ákvæðið í 24. gr. um meðferðaráætlun fyrir fanga eða sú grein gengur mun skemmra en ákvæðið í gildandi lögum um meðferðaráætlun fanga. Við teljum að þvert á móti hefði þurft að leggja mun ríkari áherslu á þennan þátt og þá sérstaklega á fyrri stigum afplánunar og með tilliti til menntunarmöguleika, heilsuverndar, endurhæfingar og færniaukningar, sem okkur finnst ástæða til að taka inn í slíkar meðferðaráætlanir og mér er sérstaklega hugleikið að það verði gert.

Það kemur fram í athugasemd með frumvarpinu, svo ég fái að vitna í það orðrétt, með leyfi forseta:

„Þess ber einnig að geta hér að lagt er til að dregið verði úr kröfum til Fangelsismálastofnunar um að gera meðferðaráætlanir. Samkvæmt gildandi rétti er skylt að gera meðferðaráætlun fyrir hvern fanga. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir vegna forgangsröðunar þar sem Fangelsismálastofnun hefur ekki fengið fjármagn til að sinna verkefninu.“

Hér finnst okkur ekki aðeins vera á ferðinni metnaðarleysi heldur fullkomin uppgjöf. Það er einfaldlega gefist upp fyrir fjárskorti. En það er ekki hlutverk löggjafans, finnst mér, að taka mið af fjárveitingamöguleikum af hálfu Alþingis. Ef sett er heildarlöggjöf og grundvallandi löggjöf verður hún að taka mið af einhverju öðru. Fjárveitingar verða svo að fylgja þeim gildum og þeirri stefnu sem sett er fram í löggjöfinni. Í þessu er að okkar mati verið að breyta sjálfri betrunarstefnunni til samræmis við fjársvelti fangelsiskerfisins. Það er afturför.

Ég ætla aðeins að víkja að fullnustu óskilorðsbundinna refsinga o.fl. Um það er fjallað í III. kafla frumvarpsins, þar eru ákvæði um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisreglna. Í 15. gr. kemur fram að óskilorðsbundna refsingu skuli fullnusta eins fljótt og auðið er.

Við í minni hlutanum höfum verulegar áhyggjur af lengd boðunarlista í fangelsi landsins því að dómþolar geta þurft að bíða jafnvel árum saman eftir að fá að hefja afplánun. Það er algjörlega óásættanlegt ástand í öllu tilliti. Við teljum mjög brýnt að bregðast við því með einhverjum hætti í löggjöf, t.d. finnst okkur rétt að skoða hvort setja þurfi þak á þann tíma sem má líða áður en fullnusta dóms hefst. Við viljum líka skilja á milli afplánunarfanga og þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi.

Það er grundvallarregla, eins og kemur fram í nefndarálitinu, í íslensku réttarfari að maður skuli álitinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Við teljum að með því að hafa afplánunarfanga saman með gæsluvarðhaldsföngum sé sú grundvallarregla ekki virt.

Varðandi opin og lokuð fangelsi finnst okkur of opið að láta ráðherra það einum eftir að ákveða hvaða munur eigi að vera á opnum og lokuðum fangelsum. Þetta finnst okkur að eigi ekki að afhenda framkvæmdarvaldinu til ákvörðunar eða túlkunar heldur eigi löggjafinn sjálfur að taka stefnumótandi ákvörðun um það. Það má geta þess að nú er það þannig að öryggisfangelsi eiga samkvæmt orðanna hljóðan að þjóna öryggistilgangi og þar á að vista fanga sem eru álitnir hættulegir samfélaginu. Hins vegar er það líka staðreynd að stærsti hluti þeirra sem er í fangelsum, eða alla vega stór hluti svo að ég fullyrði ekki of mikið, er fólk sem telst ekki hættulegt samfélaginu, er ekki endilega inni fyrir ofbeldisglæpi eða þess konar glæpi að fólki stafi hætta af umgengni við fangana. Það væri þá eðlilegra að vista slíka fanga í opnara og mannúðlegra umhverfi. Við bendum á það í nefndarálitinu að þessi greinarmunur á opnu og lokuðu fangelsi geti verið æskilegur sem liður í hvatningu og umbun fyrir góða hegðun og markvissa endurhæfingu fanga. Alla vega ætti það að koma vel til álita.

Í framhaldi af því sjónarmiði má líka geta þess að við fögnum rýmkuðum möguleikum til fullnustu utan fangelsis og afplánunar með rafrænu eftirliti, en við leggjum sérstaka áherslu á mikilvægi þess að það séu málefnaleg og hlutlæg skilyrði sem verði látin gilda um þau úrræði. Þau úrræði eru, eins og ég sagði áðan, auðvitað liður í aðlögun og hafa áhrif á endurkomutíðni því að eins og fram hefur komið og kom meðal annars fram á fyrrnefndri ráðstefnu í Norræna húsinu um þessi mál er það þannig að því meira svigrúm sem fangi hefur innan veggja fangelsisins, því fyrr sem aðlögun hans hefst — og meiningin er að hún eigi að hefjast áður en afplánun lýkur — og því meira svigrúm sem hann hefur til slíkrar aðlögunar innan fangelsisins, þeim mun betri verði aðlögunin þegar út er komið. Þetta er sjónarmið sem mér finnst fullkomlega umhugsunarvert og við ættum að gefa gaum.

Meðal þess sem hefur áhrif á endurkomutíðni til dæmis í íslenskum fangelsum er öryggisnetið sem tekur við að lokinni afplánun. Það er margt sem bendir til þess að fyrstu mánuðirnir eftir að afplánun lýkur ráði því hvort einstaklingur nær að fóta sig í samfélaginu á ný. Þar skiptir stuðningur og eftirfylgni höfuðmáli, enda þurfa flestir að gjörbreyta fyrri háttum, skipta um félagsskap og gera gagngerar breytingar á lífi sínu. Í nágrannalöndum okkar hafa sveitarfélögin og frjáls félagasamtök unnið að því að mynda öryggisnet utan um fanga sem koma aftur út í samfélagið og það væri mjög æskilegt ef hægt væri að koma slíku á hér.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Við höfum gert ýmsar breytingartillögur sem eru á sérstöku þingskjali og ég hvet menn til að kynna sér þær. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að samfélagið á mikið undir því að betrun eigi sér stað eftir að brot hefur verið framið og þess vegna er betrunarleið eina skynsamlega leiðin (Forseti hringir.) sem hægt er að fara í fullnustumálum. (Forseti hringir.) Hún er samfélagslega hagkvæm, sparar fjármuni og (Forseti hringir.) er siðferðilega rétta leiðin.