145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:30]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hennar. Mér er þetta mál mjög hugleikið og sérstaklega það að inn í þessar svokölluðu meðferðaráætlanir, sem við viljum að séu nefndar betrunaráætlanir, sé einmitt tekið á þáttum eins og aukinni færni með menntun, með heilsufarsendurskoðun og ýmsu sem lýtur að endurhæfingu og aðlögun fangans eftir að út er komið.

Ég held að ef rétt er að verki staðið þá þurfi þetta nefnilega ekki að kosta mikið. En þó það kosti þá held ég að ávinningurinn sé svo margfaldur fyrir samfélagið, því eins og ég sagði í ræðu minni þá er samfélagið stærsti hagsmunaaðilinn í þessu máli. Ef það tekst að betra eina manneskju sem er á vegi afbrota, ef það er hægt að ná henni af þeirri leið og gera hana færa og hæfa sem samfélagsþegn, þá eru það ómetanleg verðmæti. Þá ertu kominn með gildan samfélagsþegn sem er virkur þátttakandi í samfélaginu þegar best lætur og það er ekki hægt að óska sér neins betra sem afleiðingu af inngripi hins opinbera í brotaferil einstaklings.