145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:32]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir upplýsandi og yfirgripsmikla umfjöllun. Mér heyrist að hún sé eins og fleiri í minni hluta og meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sammála því að ýmislegt sé til bóta í því frumvarpi sem hér liggur fyrir þótt vilji minni hlutans sé að ganga lengra.

Ég get verið sammála því að betrun eykur lífsgæði einstaklinga og lífsgæði í samfélaginu og sparar að mínu mati samfélaginu fjármuni til lengri tíma litið. Mig langar þess vegna að velta upp spurningu um þá sem þurfa að veita úrræði tengd meðferðaráætlun eða betrunaráætlun, hvort þingmaðurinn telji að þau kerfi sem við höfum á sviði fullorðinsfræðslu, framhaldsfræðslu, framhaldsskólanna, hjá Vinnumálastofnun, í starfsendurhæfingu, í heilbrigðiskerfinu og víðar, geti sinnt þessum verkefnum fyrir Fangelsismálastofnun eða hvort þurfi að sérsníða kerfin. Geta þau kerfi sem við höfum sinnt verkefninu eða þarf að sérsníða kerfin?

Hins vegar langar mig að spyrja um viðhorf þingmannsins til sáttamiðlunar og sáttaráða. Hefur hún kynnt sér hvernig að því er staðið í nágrannalöndunum, annars vegar sáttaumleitun sem hluti af meðferðaráætlun og hins vegar sem sérstakt úrræði frá dómstólum, lögreglu eða hugsanlega öðru fagfólki?