145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta innlegg. Ég tel að innan fullorðinsfræðslunnar, símenntunarkerfisins, í starfsendurhæfingunni, þá eigum við þekkingu, getu og mannauð sem getur hvenær sem er komið að sérsniðnu verkefni eins og því að móta sérhæfðar betrunaráætlanir fanga. Menn hafa nú tekist á við annað eins, held ég, í menntunar- og velferðarkerfi okkar.

Ég tek sem dæmi, svo ég hugsi nú upphátt, að við sjáum í sjónvarpinu þættina Biggest loser þar sem mjög sérhæft fólk aðstoðar einstaklinga við að vinna bug á heilsufarsvanda og líkamlegum óþægindum sem fylgja ofþyngd. Ég gat ekki annað en hugsað um fanga í fangelsum þegar ég var að horfa á þetta síðast. Ungur maður sem kemur í fangelsið til að staldra þar stutt við, kannski í innan við mánuð, hann ætti að fá einhverja svona aðstoð, þó ekki væri nema svona meðferðaráætlun, það gæti gagnast honum verulega, að kenna honum eitthvað, láta hann fara í heilsurækt, leyfa honum að reyna færni sína, eiga samtöl við sálfræðinga og svo framvegis. Það er mín persónulega skoðun, ég er náttúrlega ekki sérfræðingur á þessu sviði, en ég held að það væri hægt að aðstoða stórlega t.d. unga afbrotamenn sem koma til afplánunar ef þeir eru gripnir frá fyrsta degi og aðstoðaðir þótt þeir stoppi ekki nema í örfáar vikur í fangelsinu. Það að þeir stoppi stutt ætti ekki að verða til þess að þeir fái ekki meðferðaráætlun eða betrunaráætlun, þvert á móti hefði ég haldið að mikilvægt væri að byrja strax. Ég vona að ég hafi svarað spurningunni.