145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Þá eigum við sáttamiðlunina og sáttaumleitunina eftir og ég treysti því að það komi í seinna andsvari.

Ef ég fer aðeins inn á sáttamiðlunina þá fengum við til okkar erlendan gest snemma á þessum þingvetri sem fjallaði um sáttamiðlun í heimilisofbeldismálum og kynferðisbrotamálum, jafnvel innan fjölskyldna, sem er mjög viðkvæmt svið. Mér fannst þess vegna afskaplega fróðlegt að heyra að þessu væri beitt með árangri, en til þess að hægt sé að beita sáttaumleitun í þannig málum þarf auðvitað fagfólk sem þekkir vel til og teymi sem ráða yfir þekkingu á því hvenær bæði brotaþoli og sá sem hefur brotið af sér eru tilbúnir, eru komnir á þann stað að geta tekið samtalið. Hvort sem um er að ræða svona viðkvæman málaflokk eða einhvern annan þar sem um kannski minni háttar skemmdarverk er að ræða eða eitthvað slíkt þar sem ég veit að sáttaumleitun hefur verið beitt með góðum árangri er náttúrlega mikilvægt að það sé skýrt hvar umgjörðin eigi að vera. Er hún hjá dómstólum? Er hún hjá lögreglu? Er hún hjá fagfólki annars staðar í kerfinu?