145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um lög um fullnustu refsinga og fara aðeins í gegnum nefndarálitið okkar í minni hlutanum, stikla á stóru í því. Ég get auðvitað tekið undir fjölmargt sem hér var rakið áðan.

Það er alveg rétt að samhljómur var hér síðasta haust þegar við ræddum um refsingu eða betrun. Það er algjör synd, og ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað, að betrunarhugtakið skuli ekki ná fram að ganga heldur einkennist málatilbúnaðurinn allur af refsingu, í raun með neikvæðum formerkjum í staðinn fyrir að vera á jákvæðum nótum.

Frumvarpið ber því miður merki þess að tekið er mið af fjársveltu kerfi eins og það er í dag. Það er eins og verið sé að búa til, að mér finnst, ramma utan um það í staðinn fyrir að horfa til framtíðar og reyna að byggja kerfið upp miðað við þá sýn og þá þörf sem er fyrirliggjandi, og þá ekki síst einmitt til sparnaðar í hinu svokallaða kerfi.

Það er kannski það sem þetta snýr að; annars vegar eru þeir sem þurfa að sitja inni og hins vegar er það kerfið sem ætti að taka við. Það hefur aðeins verið komið inn á það, en þetta snertir ekki bara lögin sem við fjöllum hér um heldur einnig félags- og heilbrigðiskerfið. Það er því miður það sem þessir aðilar þurfa mjög mikið á að halda og þetta frumvarp nær ekki þeim tilgangi að minnka þörfina á því.

Vikið hefur verið að því sem kom fram hjá fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, Knut Storberget, en hann var hér í Norræna húsinu í janúar síðastliðnum. Við hljótum að vilja bregðast við. Við getum yfirfært mjög margt yfir á Ísland og því skyldum við ekki geta yfirfært þá stefnu sem er ríkjandi mjög víða varðandi betrunarþáttinn? Vissulega erum við smáþjóð. Það er einfaldara að setja upp atvinnuúrræði og slíkt þegar samfélagið er stærra, ég ætla ekki að draga úr því. En þá nálgumst við hlutina bara með skapandi hætti. Við þurfum að finna leið til að draga úr endurkomum í fangelsi, sérstaklega þegar það varðar ungt fólk.

Í áliti minni hlutans er farið yfir þær greinar sem við leggjum áherslu á að þurfi að skerpa verulega á. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins í gegnum það.

Við skilgreinum betrunarhugtakið á þann veg að það feli í sér leið til að auka færni og lífsgæði einstaklings með það að markmiði að sporna gegn frekari brotastarfsemi og endurkomum í fangelsi. Bara svo að það sé áréttað þá nær þetta bæði til fanga og dómþola, þ.e. skjólstæðinga fangelsismála í mun víðari merkingu en kannski má lesa út úr því. Ég held að við séum, og heyri það alveg í samtalinu, nokkuð mikið sammála um það sem hér er lagt til. Þá má spyrja hvort kerfið sé ekki tilbúið til að ganga lengra eða hvort það er ráðherrann eða hvað. Ég upplifði það í nefndinni að hún væri tilbúin til að ganga lengra í heild sinni en hér er gert, þannig að það er einhvers staðar annars staðar sem þetta stoppar. Þá, eins og ég sagði áðan, snýst það kannski um þá fjármuni sem veittir eru í fangelsismál á Íslandi, að verið sé að smíða utan um það eins og það er en ekki eins og það ætti að vera til framtíðar.

Ég ætla að fara aðeins ofan í nokkra hluti. Fullnusta óskilorðsbundinna refsinga, það er í III. kafla frumvarpsins: Þar er verið að tala um að óskilorðsbundnar refsingar skuli fullnusta eins fljótt og auðið er eftir að dómur berst Fangelsismálastofnun. Hér hefur verið talað um boðunarlista. Margir hafa miklar áhyggjur af því að þeir séu langir og að frumvarpið breyti engu um það. Enn sitjum við því uppi með fanga sem þurfa að bíða í langan tíma eftir því að geta hafið afplánun og hafa jafnvel komið undir sig fótunum og hafið nýtt líf, ef við getum sagt sem svo, þegar kemur að því að afplána. Það er ekki boðlegt að vera með slíkt yfir sér í áraraðir. Sjálf þekki ég persónulega slíkt dæmi, þar sem aðili var orðinn fjölskyldufaðir og farinn að stunda vinnu og lífið í raun komið í hefðbundinn farveg þegar kallið kom. Það fer allt úr skorðum og það getur orðið til þess að viðkvæmir einstaklingar brotna undan álaginu sem því fylgir. Við teljum að setja þurfi þak á þennan tíma, þ.e. biðtímann áður en til fullnustu dóms kemur, að það séu sett tímamörk.

Í 17. gr. er fjallað um vistun í fangelsi þegar kemur að gæsluvarðhaldsföngum. Við í minni hlutanum teljum að sá grundvallarmunur sem er á réttarstöðu afplánunarfanga og þeirra sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi sé verulegur, vegna þess að maður er ekki talinn sekur fyrr en sekt hefur verið sönnuð. Mannréttindasáttmálinn segir að við eigum ekki að fylgja því fram með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu.

Varðandi mun á opnu og lokuðu fangelsi, þá er hann auðvitað mikill. Það er áhugavert að skoða það af alvöru að nota það sem úrræði eftir því sem hægt er, þ.e. að umbuna föngum á þann hátt. Við leggjum ekki til breytingu að svo stöddu af því að við teljum að meira þurfi til, miðað við þann aðgang sem við minnihlutaþingmenn höfum að því að leggja slíkt fram. Auðvitað þarf kerfið að vera tilbúið og ráðherra þarf að vera tilbúinn til að það nái fram að ganga.

Ég ætla eins og aðrir að tala um menntun og meðferðaráætlanir o.fl. Ég tek undir það sem hér hefur verið rætt töluvert mikið, þ.e. að gera skuli meðferðaráætlanir fyrir alla fanga eða það sem við viljum kalla betrunaráætlanir. Ef fangi er dæmdur til 30 daga vistar og situr af sér helminginn er hægt að gera áætlun sem gæti leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki þurfi að aðhafast frekar. Það þarf ekki allt að leiða til slíkrar framvindu að kerfið ráði ekki við það. Ég held að það sé afar mikilvægt að það þjóni einhverjum tilgangi þegar viðkomandi fer í fangelsi. Ef frelsissviptingin hefur engan tilgang, hverju viljum við ná fram með því að setja fólk í fangelsi?

Til þess að betrunin nái árangri, þ.e. það að þurfa að sitja inni, þarf að leggja eitthvað til þannig að viðkomandi aðili sjái eitthvað fram undan. Ég tala hér sérstaklega um ungt fólk, það er kannski ekki síst það fólk sem er að fara inn fyrir fyrsta brot sem samfélagið þyrfti að grípa og kerfið þyrfti að grípa til að ná utan um það og reyna að gera sitt besta til að koma í veg fyrir að það haldi áfram á sömu braut.

Mig langar líka að koma inn á þá umræðu sem varð í andsvörum hér áðan varðandi sáttamiðlunarleið. Ég held að hún sé sérstaklega góð ef aðilar eru tilbúnir. Það er meira að segja til eitthvað sem heitir sátt.is, það er fólk sem sérhæfir sig í þessu, það er ekki verið að finna upp hjólið. Hér er líka ágætisritgerð sem heitir Betri er mögur sátt en feitur dómur, það er sáttamiðlun til lausnar ágreiningi og er eftir Evu Margréti Kristinsdóttur, sem er lögfræðingur. Hún fjallar um sáttamiðlun sem leið til lausnar á ágreiningi milli deiluaðila. Hún nefnir Norðurlöndin sem hafa tekið þetta upp hjá sér, eins og áðan kom fram. Við fengum heimsókn í allsherjar- og menntamálanefnd og sneri málið þá að heimilisofbeldi. Þetta á alveg eins við í því. En auðvitað þarf að liggja fyrir vilji beggja vegna til að hægt sé að gera þetta. En þetta gæti verið hluti af því að senda ungt fólk ekki í fangelsi, því að að mínu mati hefur enginn í sjálfu sér gott af því að vera lokaður inni í fangelsi. Ég segi enn og aftur: Ég held að við þurfum að gera áætlun fyrir alla, burt séð frá því hvort þeir sitja stutt eða lengi inni.

Í 36. gr. er fjallað um lok afplánunar og það er kannski í beinu framhaldi af þessu neti sem þarf að vera alltumlykjandi. Það sem hefur áhrif á endurkomutíðni í fangelsi er það öryggisnet sem tekur við þegar afplánun lýkur. Margir fangar hafa lýst því sem grípur þá; þeir fara bara beint í hópinn aftur, hópinn sem er kunnuglegur; eitt leiðir af öðru og margur kemst ekki út úr því. Það þarf að ná utan um þetta. Þess vegna er það jákvætt, sem kemur fram hjá meiri hlutanum, að tilkynna eigi sveitarfélögunum og félagsþjónustunni tímanlega um að viðkomandi sé að koma út úr fangelsi. En það eitt og sér er ekki nóg. Öryggisnetið þarf að vera miklu stífara. Ég held að það sé ekki nóg að sveitarfélagið taki utan um þetta — ég er ekki með það útfært í kollinum enda ekki sérfræðingur í málinu — það þarf eitthvað meira til. Viðkomandi þarf að geta gengið að einhverri þjónustu vísri. Það er mikilvægt og það er í alla staði skynsamlegt. Það er ódýrara fyrir samfélagið að það takist að hjálpa fólki og fá það til að snúa af rangri braut.

Hér hefur margt ágætt verið rakið í frumvarpinu, meðal annars það sem við tökum undir. Umsagnaraðilar hafa til dæmis tekið fram að samfélagsþjónusta eigi ekki eingöngu að vera ákvörðun Fangelsismálastofnunar heldur líka dómara. Við leggjum til að hvort tveggja verði gert. Við lýsum ánægju okkar með að réttarfarsnefnd hafi til skoðunar að færa þetta yfir til dómstólanna, og enn og aftur sérstaklega þegar kemur að ungum föngum.

Ég vil nefna 44. gr. þar sem talað er um vistun fanga yngri en 18 ára. Við viljum að þar verði gerðar breytingar til að taka af allan vafa um að fangar undir lögaldri afpláni ekki dóma í fangelsum og vistun þeirra skuli vera í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í 45. og 47. gr. er fjallað um heimsóknir. Það er eitt af því sem skiptir miklu máli þegar kemur að betrun, það eru samskipti, að ekki sé verið að hefta samskipti fólks vegna þess að það situr í fangelsi, þ.e. ef það er ekki sjálfu sér og öðrum hættulegt. Ég veit eiginlega ekki hvaðan þetta kemur, þessi rosalega skerðing á heimsóknum til fanga. Við vitum alveg að þetta snýr fyrst og fremst að því að það vantar fangaverði, það vantar aukna gæslu. Fíkniefnavandinn í fangelsum stafar fyrst og fremst af því að það vantar aukna gæslu í fangelsunum en ekki af því að svo mikið sé um heimsóknir frá fjölskyldum og vinum, það er hreint ekki þannig. Minni hlutinn tekur því undir með laganefnd Lögmannafélagsins sem segir að verið sé að þrengja um of að réttindum fanga. Þeir segja einnig að vinir eigi að hafa sama rétt til að heimsækja fanga og fjölskylda þeirra. Mér finnst það algjörlega sjálfsagt. Mér finnst þurfa að vera gríðarlega sterk rök fyrir því ef hamla má slíkum heimsóknum. Hér er vísað til umboðsmanns Alþingis, Afstöðu og fleiri aðila sem taka undir þessi atriði.

Tíminn æðir áfram eins og alltaf. Ég ætla undir lokin að ræða réttindi fanga. Ég er ánægð með þá breytingu sem meiri hlutinn leggur til varðandi tölvunotkun og aðgang að netinu og öðru slíku, að þetta sé skilgreint almennilega. Það skiptir miklu máli í nútímasamfélagi, og aðstoðar kannski við að viðhalda geðheilsu, að slík réttindi séu ekki tekin af föngum. Maður hugsar alltaf hvaða tilgangi slíkt ætti að þjóna, af því það hlýtur alltaf að vera grundvallarhugsunin hér undir.

Síðan vil ég ræða það að fangar hafi málsvara utan fangelsis. Mér finnst mikilvægt að fangar fái að velja sér hvern þann sem þeir kjósa til að sjá um sín mál, en að hið opinbera eigi ekki að vera að skipta sér af því. Mér finnst það algjörlega út í hött að svo sé.

Mig langaði að benda fólki á að inni á afstada.is, undir rannsóknir, er að finna nokkur lokaverkefni til MA-gráðu o.fl. Ég bendi fólki á að lesa þau. Mörg þeirra eru mjög athyglisverð og styðja við það sem við í minni hlutanum leggjum til, meðal annars þar sem komið er inn á félagsmál og heilsufarsmál. Talað er um að félagsleg staða fanga sé almennt slæm. Talað er um að skortur sé á geðlæknaþjónustu og margt annað sem vert er að lesa yfir. Síðan er það Námið er besta betrunin, sem er rannsókn á námi fanga í afplánun, sem Inga Guðrún Kristjánsdóttir gerði, en Guðný Guðbjörnsdóttir var leiðbeinandi hennar. Hún fylgdi átta föngum eftir í 18 mánuði og tók fullt af viðtölum. Niðurstöður hennar benda til þess að skólaganga sé afar mikilvæg óháð því hvaða hindranir væru í námi; námsárangur, andleg sjálfsmynd, trú á eigin getu og edrúmennska héldust í hendur. Þetta er gríðarlega mikilvægt og þetta er eitthvað sem við verðum að vera meðvituð um og tryggja öllum föngum.

Virðulegi forseti. Í blálokin vil ég eins og aðrir gera 83. gr. að umtalsefni en þar er fjallað um eftirlit með þeim sem ákæru eru frestað gegn eða þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið. Minni hlutinn gerir athugasemdir við að hægt sé að fela öðrum en Fangelsismálastofnun eftirlit og telur að ekki sé ástæða til að hafa hlutina með þeim hætti. Við leggjum til breytingu á því.

Þetta er stórt mál sem á sér marga anga. Ég hvet fólk til að kynna sér það, því að eins og ég sagði áðan þá snýr þetta fyrst og síðast að því að við viljum fækka komum í fangelsi og til þess þurfum við að breyta um aðferðir.