145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[17:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um fullnustu refsinga. Hér er um nýjan lagabálk að ræða í þrettán köflum þannig að ekki er um að ræða lagabætur heldur hefur verið skrifaður nýr lagabálkur sem á að taka á flestu sem snýr að fullnustu refsinga.

Í I. kafla er rætt um markmið og skilgreiningar og gildissvið. Stjórnsýslan er tekin fyrir í kafla II. Í kafla III er fjallað um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga o.fl. Í IV. kafla er talað um réttindi og skyldur fanga, og er gleðilegt að það skuli vera komið inn og tekið sé á þeim málum. V. kafli fjallar um leyfi úr fangelsi. VI. kafli fjallar um leit, líkamsleit og líkamsrannsókn, það er ágætt að þau mál skuli vera komin svo afgerandi inn í frumvarpið, því að þarna hefur oft verið pottur brotinn varðandi valdheimildir. Í VII. kafla er rætt um agabrot og agaviðurlög. Reynslulausnir eru í kafla VIII, í kafla IX er að finna skilorðsbundnar refsingar, náðun o.fl. og í X. kafla er fjallað um fullnustu fésekta, innheimtu sakarkostnaðar og framkvæmd upptöku. Í XI. kafla er fjallað um innheimtuúrræði, en um þann kafla ætla ég sérstaklega að halda ræðu, bara um þann afmarkaða kafla, vegna ábendinga sem hafa komið. Í XII. kafla er fjallað um málsmeðferð og kæruheimildir og í XIII. kafla eru ýmis ákvæði.

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið góðar umræður hér í þinginu í dag og margt borið á góma og ekki nema von þegar lagt er til nýtt frumvarp sem snýr að öllum þeim málaflokkum sem ég fór yfir í þrettán köflum, þá er umræðuefnið nægt. En eins og ég sagði áðan ætla ég að fjalla sérstaklega um XI. kafla sem snýr að innheimtuúrræðum.

Í síðustu viku vorum við í fjárlaganefnd að ræða innheimtumál ríkisins og fengum við fyrir nefndina m.a. sýslumanninn á Norðurlandi vestra, sem fer fyrir innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar, til að ræða þessi mál. Það voru mjög sláandi upplýsingar sem komu fram á þeim fundi því að það eru hvorki meira né minna en 8 milljarðar kr. útistandandi í árslok 2015 í sektum og sakarkostnaði. Við stöndum okkur afar illa miðað við Norðurlöndin varðandi innheimtu og réttarúrræði í þessum málum, því að hér á landi eru einungis 8% almennra sekta innheimt og innheimta á sakarkostnaði er lægri, eða um 6%. Þetta þýðir að sektir safnast upp þar til þær fyrnast og eru að lokum afskrifaðar þannig að innheimtumiðstöð vantar úrræði til þess að geta beitt sér af fullum krafti til að ná því fjármagni sem ríkið á inni. Í ríkisrekstrinum eins og nú er munar heldur betur um 8 þús. milljónir, þótt ég geri mér grein fyrir því að þetta fé verður ekki innheimt að fullu þó að innheimtustofnunin fengi með lögum tæki til að ganga fram í innheimtu.

Þess ber jafnframt að geta að þetta er ekki einungis mikið hagsmunamál fyrir ríkissjóð eins og ég fór yfir heldur felst í þessu ákveðin mismunun því að ríkissjóður innheimtir útistandandi skattskuldir upp í rúmlega 98%. Það eru innan við 2% af skattskuldum sem ekki nást í innheimtu því að þar eru víðtækar heimildir til þess að fara í launaafdrátt og annað, eins og fólk þekkir, en þeir sem skulda sektir og sakarkostnað sleppa í mörgum tilfellum því að í báðum flokkum er innheimtan langt innan við 10%. Þetta er mjög umhugsunarvert og ég tel að þarna sé um mikið ósamræmi að ræða vegna þess að í báðum þessum flokkum er um að ræða skuld einstaklinga við ríkið.

Mig langar til að fara aðeins ofan í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi vestra sem fer fyrir innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar. Þess ber að geta að við ræddum það í fjárlaganefnd í síðustu viku hvort fjárlaganefnd ætti ekki að leggja fram breytingartillögu við 2. umr. í þá veru að heimild til launafrádráttar yrði veitt, líka til að leiðrétta það ójafnræði sem felst í innheimtumálum ríkisins. Ég kem til með að gera grein fyrir tillögunni á eftir og óska ég eftir því að hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd taki frumvarpið inn til nefndar fyrir 3. umr. og fari rækilega yfir þau rök sem er að finna í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi vestra og ef fjárlaganefnd kemur til með að flytja breytingartillögu á þessum grunni. Ég kem til með að taka breytingartillöguna fyrir undir öðrum málum á morgun í fjárlaganefnd, en það er fundur klukkan hálfníu og stendur til kl. tólf, þá kemur í ljós hve margir flutningsmenn verða á breytingartillögunni. Andinn var sá í fjárlaganefnd, eftir að sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra gekk af fundi, að ekki væri annað hægt en að flytja breytingartillögu í þessa veru, sér í lagi þar sem útistandandi upphæðir eru svo háar. Ítreka ég það, virðulegi forseti, að við erum að tala um 8 milljarða í árslok 2015.

Þá ætla ég að víkja að þeirri umsögn sem sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra skilaði til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þar kemur fram að í desember árið 2010 sendi sýslumaðurinn fyrir hönd innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar þáverandi dómsmála- og menntamálaráðuneyti tillögur að breytingum á lögum um fullnustu refsinga, almennum hegningarlögum og lögum um meðferð sakamála. Drög að frumvarpi voru samin að beiðni ráðuneytisins. Í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar, Eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar, sem kom út í júní 2009 og hefur gjarnan verið vísað í hér í dag, kom síðari skýrsla Ríkisendurskoðunar 2011. Niðurstöður hennar, sem segja má að sé framhaldsskýrsla frá ríkisendurskoðanda, bentu til að enn þá væru miklir ágallar á núverandi regluverki um innheimtu sem meðal annars yllu ósamræmi innan eðlislíkra málaflokka og hefðu áhrif á skilvirkni refsinga.

Það er alveg skýrt að þarna er verið að gera athugasemdir við verklagið og að það er uppi ósamræmi, þannig að ég tel að löggjafinn geti ekki annað en hlustað á þessi rök og hlustað á forstöðumanninn sem fer fyrir þessari stofnun.

Í umsögn sýslumanns segir að á árinu 2010 þegar frumvörpsdrögin voru kynnt var ætlunin að bæta og skýra reglur um innheimtu sekta og sakarkostnaðar, svo og krafna um jafnvirðisupptöku og endurkrafna bóta- og gjafsóknarnefnda, efla innheimtukerfið og skýra reglur um fyrningu viðkomandi innheimtukrafna. Þá segir í umsögninni:

„Talið er nauðsynlegt að auknar heimildir verði veittar innheimtumiðstöð sýslumannsins á Norðurlandi vestra til innheimtu þessara krafna. Þá er það einnig samhljóða álit Ríkisendurskoðunar og Fangelsismálastofnunar að efla þurfi til muna úrræði yfirvalda til innheimtu sekta, þannig að til undantekninga heyri að fésektir séu fullnustaðar með vararefsingu, en mikið hefur borið á því að hærri sektir séu fullnustaðar með þeim hætti. Þótti rétt að líta til nágrannalandanna í þessu sambandi og miða breytingar á íslenskum lögum við það sem gefist hefði vel annars staðar á Norðurlöndunum, svo sem launaafdráttur til innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Heyrir beiting vararefsingar þar til algerra undantekninga.“

Þarna erum við komin að því máli, virðulegi forseti, að beita sömu tækjum til að innheimta sektir og sakarkostnað og gerist um skattkröfur. Mér finnst það hið eðlilegasta mál og vísa í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

Svo er farið yfir það að með þessum tillögum fylgdi ítarlegur kafli um innheimtuúrræði. Þar var lögð til sú meginbreyting að launaafdráttur yrði heimilaður og yrði hann jafnframt fyrsta úrræði til fullnustu sekta og fleiri krafna sem ekki hefðu verið greiddar eða umsamdar innan tiltekins frests. Þannig yrði gerð tilraun til launafrádráttar áður en kæmi til fjárnáms, nauðungarsölu eða afplánunar vararefsingar í fangelsi.

Með þessu væri raunverulega verið að gefa heimild til að beita mildasta úrræðinu, að fyrst væri tekið af launum áður en farið yrði í kannski harðari úrræði eins og fjárnám og nauðungarsölu, ég tala nú ekki um fangelsisvist, virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt mikið í dag í þessu máli um að fangelsisvist eigi að vera betrun. Ég tek undir það. Það er vægasta úrræði sem sú þvingun hefur að taka út refsingu. Hér er ég jafnframt að leggja til vægasta úrræðið sem hægt er að bjóða upp á sem er launaafdráttur til að innheimta sektir og sakarkostnaðar.

Ég hvet hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd að taka tillit til þessa því að eins og allir vita er fjárnám og nauðungarsala afar íþyngjandi og hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir hið opinbera og er mjög íþyngjandi fyrir þann sem skuldar, því að enginn vill ganga í gegnum fjárnám eða nauðungarsölu, hvað þá að afplána vararefsingu í fangelsi. Á hinn bóginn er það svo, því miður, að fangelsin eru yfirfull og margsetin og langir biðlistar, þannig að þegar upp er staðið er harðasta refsingin, að afplána í fangelsi, kannski aldrei notuð vegna þess að ekki er pláss í fangelsunum. Innheimtustofnunin getur í raun ekki boðað fólk í afplánun í fangelsi til að hvetja það til að greiða sektir og sakarkostnað, því að menn vita að það kemur mjög sjaldan til þess að viðkomandi sé færður í fangelsisvist. Þetta er svipað og með skattskuldirnar, ýtrasta úrræðið er mjög sjaldan notað. Mig minnir að það hafi komið fram hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra að embættið hafi á síðastliðnum tveimur og hálfu ári fengið tvö pláss til að nota sem þrautalendingu til að innheimta sektir.

Þá ætla ég aðeins að fara yfir breytingartillöguna sem ég er að undirbúa mig fyrir að leggja fram ásamt vonandi sem flestum í fjárlaganefnd. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Innheimtuaðila er heimilt að fara fram á launafrádrátt við launagreiðanda sökunauts hafi krafa vegna sektar eða sakarkostnaðar, krafa um jafnvirðisupptöku eða endurkrafa bóta- eða gjafsóknarnefnda ekki verið greidd eða um hana samið innan tilskilins frests. Heimild þessi nær einnig til hvers kyns greiðslna sem sökunautur kann að fá frá öðrum aðilum en eiginlegum launagreiðanda, svo sem frá Tryggingastofnun ríkisins, Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, lífeyrissjóðum, tryggingafélögum o.s.frv.

Innheimtuaðila er heimilt að fara fram á launafrádrátt samkvæmt 1. mgr. við vanefndir sökunauts á þegar gerðum greiðslusamningi.

Fjárhæð launafrádráttar skal að jafnaði miðuð við mismunun ráðstöfunartekna og áætlaðs framfærslukostnaðar samkvæmt grunnneysluviðmiðum velferðarráðuneytis, en skal þó ekki vera lægri en 10.000 kr. á mánuði. Heimilt er að líta til sérstakra útgjaldaliða að beiðni sökunautar við ákvörðun um launafrádrátt.

Launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum sökunautar að kröfu innheimtuaðila, til lúkningar krafna vegna sekta, sakarkostnaðar og jafnvirðisupptöku, svo og til lúkningar endurkrafna bóta og gjafsóknarnefnda.

Heimilt er að gera aðför hjá launagreiðanda vegna launaafdráttar sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari grein.“

Virðulegi forseti. Það er tillaga mín að þessi grein bætist inn í XI. kafla frumvarpsins og verði að 95. gr., á eftir 94. gr. sem fjallar um undanskot eigna.

Svo ég vitni aftur í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi vestra, þá segir þar:

„Auk tillögu um heimild til launaafdráttar hefur IMST lagt til að lögfest verði heimild til skuldajafnaðar við inneignir sökunauts hjá ríkissjóði, en heimildir til skuldajafnaðar hafa hingað til ekki verið lögbundnar. Markmið tillögunnar var að taka af allan vafa um hvort skuldajafna megi eður ei. Tillagan var svohljóðandi:

Heimilt er að skuldajafna sekt, sakarkostnaði, kröfu um jafnvirðisupptöku og endurkröfu bóta- eða gjafsóknarnefnda á móti inneign sökunautar vegna ógreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Þetta er tillaga sem sýslumaðurinn leggur til sem snýr að skattgreiðslum, en ég legg fyrst og fremst áherslu á að sú tillaga sem ég var að leggja til að yrði að 95. gr., verði samþykkt vegna eðli hennar.

Tillögur sýslumanns og skoðanir eru vel rökstuddar í umsögn hans. Það er vísað til þess hvernig innheimtu sekta og sakarkostnaðar er háttað annars staðar á Norðurlöndunum. Hér er talað um að innheimtustofnunin sendi spurningalista til innheimtuaðila sekta og sakarkostnaðar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, um heimildir og aðgengi þeirra að upplýsingum í tengslum við innheimtuna. Má sjá á bls. 5 og 6 í umsögninni að fyrirkomulagið er með þeim hætti í þeim löndum eins og lagt er til í tilvonandi 95. gr., verði hún samþykkt í þinginu. Innheimtuaðilar í þessum löndum hafa slíkar heimildir.

Ég minni enn og aftur á það og þreytist ekki á að segja það að við eigum ekki að finna upp hjólið, við eigum að sækja fyrirmyndirnar til Norðurlanda, þangað sem við sækjum meira og minna alla okkar löggjöf. Þar eru slíkar heimildir til staðar.

Það væri mjög ankannalegt, virðulegi forseti, ef við mundum ekki taka upp sambærilegt kerfi, sérstaklega í ljósi þess að þessi tillaga var inni í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsingar þegar Ragna Árnadóttir var dómsmálaráðherra. Svo af einhverjum sökum datt tillagan út úr frumvarpinu þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson varð dómsmálaráðherra, og svo breyttist það embætti í innanríkisráðherra, og hefur ekki komið inn aftur. Ég tel einsýnt að greinin verði sett inn í frumvarpið og verði að lögum því að það er allt of mikið í húfi fyrir ríkissjóð. Árangur í innheimtu er allt of slakur vegna þess að verkfæri vantar fyrir innheimtumanninn, setja þarf það í löggjöfina því að það er ekki hægt að einungis sé verið að innheimta 8% sekta og 6% sakarkostnaðar á meðan innheimtar eru 98% af útistandandi skattskuldum. Við verðum að gæta jafnræðis. Löggjafinn verður að fara fram með góðu fordæmi og gera aðilum jafn hátt undir höfði sem í þessu tilfelli skulda, svo við tölum nú ekki um upphæðina sem er útistandandi. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar nema útistandandi skuldir vegna sekta og sakarkostnaðar meira en 8 milljörðum kr. í árslok 2015.

Virðulegi forseti. Það væri hægt að gera mjög margt fyrir þessa upphæð. Þennan aur verður ríkið að ná í. Það gerum við með því að samþykkja breytingartillöguna sem lítur vonandi dagsins ljós formlega í þinginu á morgun.