145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[17:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góða samvinnu í allsherjar- og menntamálanefnd í þessu máli og fyrir störf nefndarinnar allt þetta kjörtímabil í þessum málaflokki. Nefndin hefur verið mjög samstiga og hefur viljað gera betur í þessum málaflokki, sérstaklega hvað varðar betrun fanga. Við höfum sérstaklega tekið fyrir menntun þeirra og aðstæður til þess, sem ber að fagna.

Vissulega er hægt að taka undir það að frumvarpið sjálft sé ekki fullkomið, það hefði mátt ganga lengra og leggja meiri vinnu í marga hluti, en það eru samt margar breytingar þar til góða og ýmsar breytingar til þess að styðja við betrun. Þótt betrun sé kannski ekki algengasta orðið hérna þá töldu þeir aðilar sem hafa unnið í þessum málaflokki mikilvægt að þessar breytingar kæmu fram svo hægt væri að auðvelda þeim að sinna svokallaðri betrunarstefnu.

Vegna áhuga nefndarinnar gerir nefndin ýmsar breytingar á frumvarpinu og leggur til að ráðuneytið vinni fjölda annarra breytinga sem kosta kannski einhverja undirbúningsvinnu. Þar má helst nefna tvennt, það er samfélagsþjónustan og hvernig hægt er að útvíkka það úrræði og nýta það betur, en á sama tíma er mikilvægt að halda í þá samfélagsþjónustu sem er beitt núna þó að vald dómara til að dæma beint í samfélagsþjónustu verði aukið. Þetta tvennt þarf að spila saman og ráðuneytið hefur falið refsiréttarnefnd að skoða það, sem er gott. Svo er það hitt, hvernig auka megi rafræna eftirlitið og nýta það úrræði betur. Þeir sem eru lengi á biðlista hljóta að geta verið undir rafrænu eftirliti og fengið þá einhverja úrlausn og viðbrögð frá kerfinu miklu fyrr, sem ég tel vera mjög eðlilegt.

Ég vonast til þess og legg mikla áherslu á það að þessar tvær breytingar komi samhliða inn í þingið næsta haust þannig að við getum unnið hratt þegar þing kemur saman aftur og gert frumvarpið að lögum. Ég held að þrátt fyrir að frumvarpið gangi ekki jafnt langt og við hefðum viljað þá erum við búin að ná inn það miklum breytingum að við getum náð mjög miklum árangri. Um leið og við náum einhverjum árangri þá aukast tækifæri kerfisins til að gera enn betur, sjálfkrafa, án lagabreytinga. Þegar farið verður að vinna niður biðlistana, kerfið verður rekið með hagkvæmari hætti og hefur meira svigrúm til að fylgja betrunarstefnunni eftir, held ég að við munum sjá árangurinn hratt. Þess vegna er ekki allt fengið bara með lagabreytingum. Þó að lögin séu ekki orðin nákvæmlega eins og allir vilja þá geta fangelsismálayfirvöld, félagsþjónusta sveitarfélaganna, heilbrigðiskerfið, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða ríki, og aðrir, tekið sig saman um að gera þetta myndarlega og þau verða að samhæfa sig. Hvernig við segjum kerfinu að starfa eftir þeim heimildum sem eru fyrir hendi gerist ekki alltaf bara með lögum. Ég held að það sé það sem við höfum rekið okkur á, að það þurfi svolítið meira samtal á milli kerfanna sem eiga að halda utan um fangana, þau þurfa að auka samstarf sitt. Þau þurfa ekki frekari lagaheimildir til þess eða skipanir að ofan heldur eiga þau bara að finna það hjá sjálfum sér að fara eftir þessu og nýta þau tæki sem þau hafa og eiga ekkert að bíða eftir að vera sagt fyrir verkum.

Ég held að hér sé mjög gott mál á ferðinni þó að ekki sé gengið alla leið. En við erum að reyna að gera það sem við getum án þess að kollvarpa hlutunum. Góðir hlutir gerast hægt.

Mig langaði bara að leggja áherslu á að ég tel þetta skref sem við getum tekið vera í góða átt og ég tel mikilvægt að við fáum sem allra fyrst í haust þær breytingar sem nefndin kallar eftir og er mikil sátt um varðandi samfélagsþjónustu og rafræna eftirlitið. Við teljum að allir þeir sem koma að þessu kerfi eigi að tala saman og gera það sem þeir geta til þess að styrkja betrunarstefnuna og á eftir munum við standa með betra samfélag.