145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

almenn hegningarlög.

100. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni og nefndinni allri og sömuleiðis síðasta ræðumanni fyrir jákvæðar undirtektir við þessu þingmáli og góð orð í garð þess. Ég er 1. flutningsmaður þess ásamt með þingmönnunum Kristjáni L. Möller, Oddnýju Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Valgerði Bjarnadóttur og þakka ég þeim samstarfið.

Málið er flutt vegna þess að við þurfum stórstígar framfarir í fangelsismálum á Íslandi. Það er til vansa hversu lítil áhersla hefur verið lögð á málaflokkinn og hversu litla athygli við í þinginu höfum sýnt honum, bæði að innihaldi en líka hvað fjármuni varðar.

Við vorum svo heppin í Samfylkingunni og Pírötum á dögunum að fá hingað Knut Storberget, fyrrverandi dómsmálaráðherra Norðmanna, sem hefur verið með mér í þingflokki jafnaðarmanna í Norðurlandaráði og beitti sér fyrir mjög róttækum endurbótum á betrunarkerfinu í Noregi, til þess að ræða þessi málefni hér. Ég treysti því að margt sem fram kom í þeim áhugaverðu umræðum, sem fram fóru í Norræna húsinu, um þetta efni muni skila sér inn í fleiri tillögum í þinginu um úrbætur sem hægt er að ráðast í.

Það sem er á ferðinni er að sá ágalli hefur verið á samfélagsþjónustu í kerfi okkar að dómarar hafa ekki átt þess kost að dæma unga afbrotamenn eða aðra afbrotamenn til samfélagsþjónustu. Með því að þessi tillaga verði að lögum, og ég vona að svo verði á haustinu í samræmi við samhljóða niðurstöðu nefndarinnar að beina þessu til refsiréttarnefndarinnar og ráðherrans að flytja slíkt mál á haustþingi, gætu dómarar beitt því úrræði og dæmt unga brotamenn og jafnvel brotamenn á öllum aldri til samfélagsþjónustu í stað fangelsisrefsingar. En til þess þarf auðvitað að koma, eins og fram kom hjá hv. framsögumanni, stuðningur við þá sem eru í samfélagsþjónustunni, þannig að hún skili tilætluðum árangri.

En ég vil líka, virðulegur forseti, fá að leggja áherslu á það í lokaorðum mínum um þetta mál á þessu þingi að sérstaklega vel verði hugað að því hvernig samfélagsþjónusta verði síðan birt á sakaskrá. Það skiptir miklu máli hvernig getið er um dóm um samfélagsþjónustu á sakaskrá, hvort að þar er getið um að menn hafi verið dæmdir til fangelsisrefsingar sem síðan sé afplánuð með samfélagsþjónustu eða hvort menn hafi verið dæmdir til samfélagsþjónustu. Það getur haft mikil áhrif á eftirleikinn hjá þeim sem hljóta dóm á hvaða hátt þess er getið á sakaskrá. Ég held að hin mildari leið sé betri í því efni eins og oft er í fangelsis- og betrunarmálum.

Síðan ítreka ég þakkir mínar til nefndarinnar og þá góðu samstöðu sem þar tókst.