145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

almenn hegningarlög.

100. mál
[17:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins inn í þetta mál sem var svo ánægjulegt að geta afgreitt samhliða máli okkar um fullnustu refsinga.

Nefndir þyrftu að gera meira af því að afgreiða mál samhliða sem eiga klárlega samleið og hægt er að nýta í vinnu sem verið er að vinna í ráðuneytunum hvort sem er. Góðar hugmyndir, hvaðan sem þær koma, eiga alltaf rétt á sér.

Niðurstaðan í þessu tilfelli er að beina málinu til ráðuneytisins til ákveðinnar málsmeðferðar. Ég tek undir með hv. flutningsmanni frumvarpsins, Helga Hjörvar, að ég vona að þessi breyting líti dagsins ljós í haust, eins og tími er gefinn til. Hugsanlega verður það fyrr ef málin þróast þannig. Þar sem þetta mál á haldast í hendur við hitt frumvarpið vona ég að það verði niðurstaðan.

Ég held að við séum öll sammála um að við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk fari í fangelsi þar sem ungmenni geta lent í félagsskap sem þau koma verr út úr en ef þau hefðu ekki farið fangelsi. Við höfum heyrt af allt of mörgum slíkum dæmum. Það er fyrst og fremst undir löggjafarvaldinu komið að sjá til þess að hægt sé að búa til fleiri úrræði. Í umræðunni um fjárlögin fyrir jólin kom fram að um 450 manns bíða afplánunar. Kannski hafa einhverjir bæst við síðan þá, kannski stendur fjöldinn í stað, ég veit það ekki. Þetta er alla vega ótækt.

Ég fór inn á biðtímann áðan en við í minni hlutanum leggjum til að í frumvarpinu um fullnustu refsinga verði biðtíminn skilyrtur fyrir einhvern tímafjölda, því að ekki gengur að fólki sem er búið að koma undir sig fótunum sé kippt út úr daglegu lífi til að það geti setið af sér gamlan dóm, jafnvel þótt hann sé styttur eða eitthvað slíkt.

Árið 2014 voru 112 manns í samfélagsþjónustu. Þá voru 146 í fangelsum. Ef maður veltir því fyrir sér er náttúrlega heilt kerfi utan um þá sem sitja í fangelsum en ég held að það séu tveir starfsmenn sem sinna samfélagsþjónustunni. Það er því á allan hátt ódýrara úrræði fyrir utan að vera miklu miklu betra.

30. apríl fyrir rétt um ári síðan kom fram á RÚV að samkvæmt danskri rannsókn er sex sinnum ódýrara að dæma unga fanga til samfélagsþjónustu en að hafa þá í fangelsum. Ég held að við gerum okkur grein fyrir því þegar við hugsum hlutina út frá öllu því utanumhaldi og þeim rekstri sem fylgir því að vera í fangelsi. Þetta kom fram í viðtali við Brynju Rós Bjarnadóttur í þættinum Samfélaginu í nærmynd. Brynja Rós er sérfræðingur hjá Fangelsismálastofnun og fer hún í viðtalinu yfir samfélagsþjónustuna og segir að hún hafi aukist ár frá ári frá því að hún var sett á laggirnar árið 1995. Segir hún að þetta úrræði komi til álita þegar einungis er um sektir eða dóma upp á níu mánuði eða minna að ræða. Þegar kemur að ungum föngum mundum við vilja að menn sæju í gegnum fingur sér varðandi tímafaktorana og reyndu að miða fyrst og fremst við aldur og ástand og eitthvað slíkt.

Hér hefur samfélagsþjónusta mikið verið rædd og það utanumhald og öryggisnet sem tekur við. Í fyrrnefndum þætti var líka viðtal við Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann segir að við séum langt á eftir samanburðarþjóðum í þeim efnum, bæði þegar kemur að því sem heitir ný úrræði í samfélagsþjónustu og því að hafa möguleika til að dæma fólk til slíkrar þjónustu. Núna er þetta eingöngu á forræði stjórnvalda.

Jón Þór segir, með leyfi forseta:

„Síðast þegar ég kannaði var Ísland eina landið í heiminum þar sem dómstólar voru ekki með það vald að dæma til samfélagsþjónustu.“

Að mínu viti er afar mikilvægt að hægt sé að fara þessa leið beint. Mér finnst sú leið sem við ræddum áðan og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom með í andsvari, sáttaleiðin, vera afar spennandi nálgun, sérstaklega hvað varðar þessa aðila. Sú hugsun þyrfti að vera samferða þeirri hugsun sem er lögð til hér, þ.e. að dæma til sáttameðferðar, ég veit ekki hvað maður á að segja, eða hvernig sem má horfa á það.

En ég mundi vilja að við reyndum að fylgja því eftir við vinnslu þessa máls inni í hitt stóra málið sem er í umfjöllun eða í vinnslu, að það úrræði yrði líka tekið inn í það, sérstaklega hvað varðar ungt fólk. Við getum byrjað þar. Þar getum við séð hvort þetta er eitthvað sem virkar. Eins og ég sagði áðan er þetta til í kerfinu. Það er ekki verið að finna upp hjólið. Það er til fólk sem sérhæfir sig í þessum störfum. Ég veit ekki hvort það hentar akkúrat inn í þetta en ég er alveg sannfærð um að við eigum slíkt fólk í félagsþjónustukerfinu okkar, í velferðarkerfinu. Við þurfum þó kannski að setja upp eitthvað sérhæft til þess að búa til reynslubanka. Ég hugsa að það sé skynsamlegast.

Það gæti verið að stundum þurfi bæði að leita sáttar og vinna með viðkomandi áfram. Hann hlýtur þrátt fyrir allt refsingu í formi þess að sinna tiltekinni samfélagsþjónustu, þrátt fyrir að fara í eitthvað svona.

Eins og við höfum verið að ræða um unga fólkið er mikilvægt að það hafi aðgang að öryggisneti. Við höfum rætt allt of lengi um geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks, barna og ungmenna, og þetta helst allt í hendur, aðgengi að velferðarþjónustunni. Við heyrum ítrekað, eins og komið var inn á áðan, að fólk villist af leið og svo er líka gríðarlega mikið af ungum föngum, sérstaklega ungum mönnum, sem eru ADHD, með einhvers konar raskanir. Þetta helst því allt í hendur.

Varðandi það hvar við eigum að byrja er að mörgu að hyggja en við þurfum að hafa þetta allt saman til hliðsjónar þegar valin er besta leiðin fyrir ungan fanga eða ungan afbrotamann til betrunar, til þess að forða honum frá því að fara í fangelsi á ný eða yfir höfuð.

Mér finnst við svo oft ekki vera að tala um heildarpakkann heldur einblína á eitthvað eitt sem lausn. En þegar sá hópur sem hér er verið að reyna að ná utan á í hlut þurfum við að horfa vítt og breitt um kerfið okkar, ef við ætlum að ná raunverulegum árangri.

Eins og við höfum áður rætt skiptir hver og einn einasti sem við náum að bjarga fyrir horn máli, það er líf sem skiptir máli og ekki aðeins fyrir einstaklinginn sjálfan heldur í raun samfélagið allt. Ég veit ekki alveg hvernig þetta fer fram en ég held að það sé hlutverk okkar sem fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd að sjá til þess að þessi atriði verði svona, að það verði tekið svolítið utan um þau þegar við fylgjum málinu úr hlaði. Þegar málið verður samþykkt, sem ég geri ráð fyrir að verði gert, ég held að það sé almennur vilji til þess að þetta fari til ríkisstjórnarinnar og ráðherrans, erum við svolítið búin að sleppa af því höndunum en á móti kemur að við fáum þetta frumvarp sem við getum haft skoðanir á í framhaldinu, ef okkur líkar þær ekki.

Ég held að við þurfum að gæta mjög vel að því að einblína ekki um of á eina tiltekna leið fyrir utan fangelsi heldur á það hvernig við getum stutt við þetta unga fólk á allan máta og leitað til þeirra sem best þekkja til, eins og fanganna og félagsins þeirra, Afstöðu, eða þeirra sem hafa farið ungir í fangelsi. Hvað þýddi það fyrir þá? Hvernig breyttist það? Eða þá þeir sem hafa sinnt betrun, ég veit reyndar ekki hvort það hefur verið mögulegt, einhverjir hafa þó sinnt samfélagsþjónustu.

Við þurfum að ná til þeirra sem kunna málið. Við kunnum ekki málið. Við tölum um það en við höfum aldrei verið í þeirra sporum. Ég hef alla vega ekki verið það, hvorki sem aðstandandi né að öðru leyti. Við eigum að leita í reynsluheim þeirra en ekki til fagfólks. Þetta er fagfólkið, sem hefur upplifað þetta sjálft.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala lengur. Mér fannst mikilvægt að koma aðeins inn í málið af því að ég er mjög hlynnt þeirri hugleiðingu að samfélagsþjónusta verði hugsanlega fyrsta úrræðið. En mér finnst líka að taka þurfi allt saman í einn pakka, sáttamiðlun, geðheilbrigðisþjónustu og annað.