145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

gæði heilbrigðisþjónustunnar.

[15:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um versnandi gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Nú er svo komið að Ísland hefur hrapað niður EHCI-listann, Euro Health Consumer Index, yfir heilbrigðiskerfin í Evrópu. Ísland sem var árin 2009 og 2012 með þriðja besta heilbrigðiskerfi í Evrópu hefur á kjörtímabilinu fallið niður fimm sæti og var á síðasta ári komið niður í 8. sæti. Það er eftirtektarvert að gefa því gaum að á fyrstu árunum eftir hrun lögðu kannendur þessa lista sig fram um að meta hvernig Evrópulöndin stæðust tiltekna áhættuþætti af efnahagskreppu, þ.e. aukinn biðtíma eftir aðgerðum, aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga og minnkandi aðgengi að nýjum lyfjum. Og það er athyglisvert að Ísland skuli hafa á fyrstu árunum eftir hrun, 2009 og aftur 2012, staðist þá áhættuþætti með prýði en núna, á yfirstandandi kjörtímabili, þegar allt gengur stjórnvöldum í haginn og afgangur er af rekstri ríkissjóðs, fellur landið úr 3. sæti í það 8. og allir þeir áhættuþættir sem einkenna efnahagskreppur eru skyndilega orðnir vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi, biðtíminn, kostnaðarþátttakan og minnkandi aðgengi að lyfjum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvaða skýringar hefur ráðherrann á þeirri stöðu sem nú er uppi og ég hef lýst? Í öðru lagi: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við? Er ráðherrann með áætlun?