145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

gæði heilbrigðisþjónustunnar.

[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar því er lýst hér yfir að framlög til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu séu lægri en þau voru árið 2008 þá vil ég nefna það að framlög til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar um 28,5%, þannig að samdrátturinn hefur þá verið áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa. Það er vissulega, hvort sem þingmanninum líkar betur eða verr, búið að ná viðspyrnu. Það er langur vegur frá því að hægt sé að tala um heilbrigðiskerfið þannig að þar sé allt á niðurleið. Það er langur vegur frá því. Ég hefði álitið að þau auknu fjárframlög sem verið er að ræða um og aukin starfsemi heilsugæslunnar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, væru hv. þingmanni mjög mikið fagnaðarefni svo mjög sem hv. þingmaður ber hag heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi fyrir brjósti. Efling heilsugæslunnar er og hefur verið í töluvert langan tíma eitthvert brýnasta mál sem íslensk stjórnvöld hefðu átt að hefja (Forseti hringir.) vinnu við fyrir löngu síðan og hafa nú gert sem betur fer.