145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

kostnaðarþátttaka sjúklinga.

[15:16]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Ég vil ræða kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu á Íslandi við hæstv. heilbrigðisráðherra.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar reyni að hæla sér af heilbrigðiskerfinu og stuðningi ríkissjóðs í þeim efnum er staðan sú að sumir sjúklingar þurfa að standa straum af kostnaði upp á hundruð þúsunda kr. vegna læknis- og lyfjakostnaðar.

Gott dæmi um þetta, sem mikið hefur verið í umræðunni að undanförnu, er fólk sem er það óheppið að greinast með krabbamein. Það er óheppið í tvennum skilningi, auðvitað fyrst og fremst vegna þess að það þarf að takast á við það erfiða verkefni að berjast við þennan illvíga sjúkdóm en svo eru krabbameinssjúklingar líka óheppnir að greinast með þessa tegund sjúkdómsins hér á landi því að þessir sjúklingar þurfa oft að borga, eins og áður segir, mörg hundruð þúsund kr. úr eigin vasa.

Þetta veit hæstv. ráðherra og hann stofnaði nefnd, hann og hv. þm. heitinn Pétur H. Blöndal stofnuðu nefnd. Haustið 2013 tók nefndin til starfa, Pétursnefndin svokallaða, sem átti og hefur komið með tillögur til þess að jafna kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Þarna voru fulltrúar úr öllum flokkum og niðurstöðurnar voru á þá leið að fulltrúar allra flokka voru sammála um leiðir hvað þetta varðaði. Þau skiluðu tillögum til hæstv. ráðherra í mars fyrir ári síðan. Það sem er kannski mest um vert fyrir hæstv. ráðherra og ríkissjóðs er að tillögur þeirra kostuðu ríkissjóð ekki neitt. Hér er ekki um útgjöld að ræða heldur átti að jafna kostnað.

Ég vil spyrja hvar þessar tillögur eru. (Forseti hringir.) Hvenær fáum við frumvarp sem jafnar kostnaðarþátttöku svo að sjúklingar, sérstaklega krabbameinssjúklingar, þurfi ekki að borga háar upphæðir?