145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

kostnaðarþátttaka sjúklinga.

[15:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það þykir mér gott að heyra. Auðvitað finnst mér vont að þetta frumvarp sé ekki löngu komið fram af því að kostnaður krabbameinssjúkra hefur þá verið við lýði ári of lengi, ef við getum sagt sem svo, auðvitað miklu lengur en það en við vorum tilbúnar með þessar tillögur fyrir ári, og þá eru fjölmargir sjúklingar, svo dæmi sé tekið, sem hafa þurft að borga — eins og eitt dæmi hérna sem Kraftur, styrktarfélag krabbameinssjúkra, tekur saman þá er til dæmis íslensk kona, 38 ára einstæð móðir þriggja barna, öryrki, sem greindist í júlí á síðasta ári, þegar tillögurnar voru komnar, með sjaldgæfa tegund krabbameins. Hún hefur greitt 250 þús. kr. í kostnað þrátt fyrir öryrkjaafsláttarkort. Við höfum dæmi um að íslenskir sjúklingar hafi fengið meðferðir sínar erlendis, í Svíþjóð, í Frakklandi og þar hafa Íslendingarnir (Forseti hringir.) ekki þurft að borga krónu fyrir, hafa aldrei þurft að draga upp veskið. Ég fagna því þó að þetta frumvarp sé að fara að koma fram og ég vonast til þess að við getum klárað það fyrir þinglok.