145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

orð þingmanns um hælisleitendur.

[15:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hælisleitendum hefur fjölgað verulega hér á landi eins og alþjóð veit enda er ástand víða alvarlegt og margir flýja óbærilegar aðstæður í heimalandi sínu. Ásmundur Friðriksson, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, lét orð falla um hælisleitendur og flóttamenn á Alþingi í gær undir liðnum störf þingsins. Þau orð hafa vakið talsverða athygli. Hv. þingmaður sagði meðal annars að það væri mikilvægt að við skoðuðum hvort nauðsynlegt væri að flóttamönnum eða hælisleitendum væri snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima. Í vanda sem glímt er við elur hv. þingmaður á ótta fólks við innflytjendur og hoppar á vagn sem popúlistar í Evrópu og forsetaframbjóðandinn Donald Trump í Bandaríkjunum keyra.

Í byrjun vikunnar var stofnaður stjórnmálaflokkur hér á landi sem elur á útlendingaandúð og í kjölfarið veltir hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins vöngum yfir því hvort loka eigi landamærum og ganga úr Schengen.

Hvað finnst hæstv. velferðarráðherra um orð hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins? Vill hæstv. ráðherra einnig loka landamærum og ganga úr Schengen? (Gripið fram í.) Formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, hefur sagt í fjölmiðlum að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr; það eigi að hafa mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í þessum efnum og hún telur að umrædd ummæli fari gegn þeirri stefnu og einnig stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er stefna Framsóknarflokksins eins skýr í þessum efnum?