145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

orð þingmanns um hælisleitendur.

[15:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Við tókum nýlega við fyrstu kvótaflóttamönnunum frá því að stríðið á Sýrlandi hófst. Við þurfum að gera enn betur og þess vegna lögðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar og fleiri fram þingsályktunartillögu síðastliðið haust þar sem lagt var til að við Íslendingar yrðum búin að taka á móti að minnsta kosti 500 flóttamönnum samtals árið 2017.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún vinna í anda þeirrar þingsályktunartillögu þar sem einnig er talað um að sérstök áhersla verði lögð á móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og flóttafólks annars staðar frá sem eru í sambærilegri stöðu, og viðkvæma hópa flóttamanna sem Ísland hefur tekið á móti undanfarin ár í samstarfi við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna?

Mun hæstv. ráðherra vinna í þeim anda? Hvernig stendur núna undirbúningur fyrir móttöku fleiri flóttamanna?