145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

orð þingmanns um hælisleitendur.

[15:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Frá því að ég tók við sem félags- og húsnæðismálaráðherra hef ég lagt áherslu á að við eigum að taka á móti kvótaflóttamönnum. Það höfum við gert.

Þetta var ekki fyrsti hópurinn af sýrlenskum flóttamönnum sem kom þarna. Við höfum áður lagt til, ég og þáverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, að við tækjum á móti sýrlenskum flóttamönnum sem eiga við heilbrigðisvanda eða fötlun að stríða. Það voru 13 einstaklingar sem komu þar.

Síðan kom þessi hópur núna eftir áramótin, sem er þá hópur númer tvö frá Sýrlandi. Hann er hins vegar tvískiptur þannig að við eigum von á því fljótlega að seinni hluti þessa hóps komi, þar á meðal lítill væntanlegur Íslendingur, sem var ástæðan fyrir því að koma þeirrar fjölskyldu tafðist því að verið var að bíða eftir fæðingu barnsins.

Síðan, í beinu framhaldi, þegar þessi hópur er kominn munum við óska eftir því að fá frekari gögn frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku næsta hóps.

Nú þegar höfum við tekið á móti (Forseti hringir.) fleiri kvótaflóttamönnum en var gert allt síðasta kjörtímabil, held ég. Ég held að við munum halda áfram að starfa í anda þingsályktunartillögunnar sem kom frá þingflokki Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) og þeirrar áherslu sem ég kom með inn í ráðuneytið frá upphafi, að við eigum að taka á móti kvótaflóttamönnum.