145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð stöndum að áliti minni hlutans í þessu máli og breytingartillögum hans. Eins og margir aðrir sem hér hafa talað teljum við frumvarpið vera til bóta og breytingartillögur meiri hlutans. En við segjum þó að það er ekki til nógu mikilla bóta. Það er einkum í átt til betrunar sem við viljum þoka þessum málaflokki, fullnustu refsinga.

Hins vegar má samt segja að mér finnst vera samhljómur um það í allsherjar- og menntamálanefnd að vilja fara með málaflokkinn í þá átt að leggja meiri áherslu á betrun. En það er greinilegt að menn vilja ekki flýta sér hraðar í þessum efnum. Við erum svolítið óþolinmóð í minni hlutanum þegar kemur að þessu.

Ég fagna því að það er vinna í gangi í þessa átt eins og kom fram í umræðu innan nefndarinnar og hefur komið fram í máli hv. formanns nefndarinnar. (Forseti hringir.) Ég vona alla vega og treysti því að tillögur minni hlutans í þessum efnum verði hvatning og innlegg inn í þá vinnu, (Forseti hringir.) verði þær ekki samþykktar hér.