145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir þetta. Þegar maður fer í heimsókn í fangelsi og talar við þá sem þar þurfa að sitja inni kemur þetta ítrekað fram, þ.e. lágir dagpeningar sem hafa ekki tekið neinum breytingum í afar langan tíma. Með þessu ákvæði á að taka greiðslu á skaðabótum af dagpeningum og hér er breytingartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þar sem má fara inn í allar þær greiðslur sem fangar hafa einhvern tíma til þess að greiða það sem þeir hafa verið dæmdir til að greiða. Það er alveg ljóst að meðan þeir sitja inni er staða þeirra auðvitað afar bágborin og það að ætla að fara að rífa fjármuni af þeim getur orðið til þess, og hefur orðið til þess, það er bara staðreynd, að menn eiga ekki fyrir nauðþurftum. Það er afar dapurlegt, ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, að geta ekki einu sinni keypt afmælis- eða jólagjöf handa börnunum sínum. Vill einhver vera í þeirri stöðu? Það held ég ekki. Þetta er ekki ákvæði sem fólk á að segja já við.