145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem er flutt hér af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Eins og allir vita hafa málefni útlendinga og útlendingalöggjöfin verið mjög til umræðu í íslensku samfélagi sem og víðs vegar annars staðar í Evrópu og heiminum á undanförnum mánuðum.

Ráðherra innanríkismála hefur skipað þverpólitíska þingmannanefnd sem skilað hefur af sér heildstæðu frumvarpi um ný útlendingalög. Við bíðum þess nú að það mál líti dagsins ljós og komi hér í þingið. Engu að síður þótti okkur í meiri hlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd nauðsynlegt að leggja fram þetta litla frumvarp sem þó er efnislega mjög mikilvægt.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Verkefnið er greint í fjóra þætti: Í fyrsta lagi eru gerðar hér tillögur um breytingar á nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála. Nefndin var sett á fót á þessu kjörtímabili og við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar höfum fylgst með störfum nefndarinnar og teljum mjög mikilvægt að ráðast í þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Í öðru lagi er lagt upp með að fjölga nefndarmönnum úr þremur í sjö og haga því þannig að varaformaður nefndarinnar verði skipaður í fullt starf, að bæði formanni og varaformanni verði heimilt að úrskurða einir í ákveðnum málum og að nefndin geti sjálf ákveðið hvort umsækjandi komi fyrir nefndina í stað þess að umsækjandi eigi rétt á því ef hann óskar eftir því.

Vissulega hefur nefndin staðið sig ágætlega en það er ljóst að álagið er það mikið á nefndinni að það er mikilvægt að við styrkjum lagagrundvöllinn undir störf nefndarinnar þannig að störfin verði enn skilvirkari. Meginmarkmið okkar er að umsóknir og afgreiðsla þeirra taki sem skemmstan tíma í kerfinu. Það er bæði gott gagnvart þeim sem sækja um og bíða eftir niðurstöðu að þurfa ekki að bíða allt of lengi, og eins fyrir okkur hér að kerfið sé skilvirkt þannig að við getum haldið því uppi og að það sé gert á sem hagkvæmastan hátt. Það er meginþunginn í málinu.

Í þriðja lagi leggjum við til að réttaráhrifum verði ekki frestað í málum þar sem ríki eru talin örugg upprunaríki og aðstæður umsækjanda eru þannig að augljóst er að ákvæði 44. og 41. mgr. 45. gr. laga um málefni útlendinga eiga ekki við. Í þeim ákvæðum er fjallað um flóttamannahugtakið. Hér er vissulega um að ræða mikla breytingu sem er stór en varðar þó ekki stóran hluta þeirra umsækjenda og umsókna sem okkur berast. Breytingunni er ætlað að tryggja að þeir einstaklingar sem sækja um en eiga augljóslega ekki heima inni í því neyðarkerfi sem hælisleitendakerfið er, fari aðrar leiðir.

Í frumvarpinu, sem þverpólitíska þingmannanefndin vann og er núna á lokasprettinum í ráðuneytinu, er verið að liðka mjög þær reglur sem kveða á um með hvaða hætti einstaklingar geta sótt hér um leyfi á öðrum grundvelli, þ.e. sótt um dvalar- og atvinnuleyfi. Þær reglur hafa verið allt of stífar hjá okkur. Við vitum að þeir einstaklingar sem ættu frekar að eiga leið þar í gegn eða alla vega reyna að fara þá leið, og eiga í raun ekki heima inni í þessu neyðarkerfi, taka talsverðan tíma inni í kerfinu. Þetta er tilraun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar til að setja fram tillögu til að reyna að losa þann tappa úr kerfinu.

Í fjórða lagi leggjum við fram tillögu sem miðar að því að gera Útlendingastofnun kleift að sinna upplýsingaskyldu gagnvart hælisleitendum líkt og lögreglu í upphafi málsmeðferðar, en einnig er afnumin heimild Útlendingastofnunar til að taka ákvörðun án þess að taka viðtal við hælisleitanda. Það er breyting sem liðka á fyrir málsmeðferðinni og við teljum mikilvægt að taka hana strax til skoðunar í nefndinni.

Við leggjum til að gildistakan á þessu máli komi til framkvæmda strax. Fram kemur að um mál sem borist hafa kærunefnd útlendingamála fyrir gildistökuna en hafa ekki verið afgreidd gildi ákvæði laganna, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir. Einnig er hér ákvæði til bráðabirgða um að núverandi nefndarmenn í kærunefndinni skuli halda skipun sinni út skipunartímann. Ráðherra skipar við gildistöku þessara laga fjóra nefndarmenn til viðbótar samkvæmt ákvæði 1. gr., þar með talið varaformann nefndarinnar. Núverandi varaformaður heldur skipan sinni sem slíkur þar til nýr varaformaður hefur verið skipaður í samræmi við ákvæði 1. gr.

Í heild sinni er þetta eins og ég sagði í upphafi, tilgangurinn með frumvarpinu er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð. Það er alveg ljóst að árið 2015 tvöfaldaðist fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi miðað við árið á undan. Við sjáum ekki annað í kortunum en að sú tala fari enn upp á þessu ári vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa, sérstaklega vegna málefna Sýrlands. Við þurfum að vera meðvituð um að við þurfum alltaf að hafa augun á boltanum og fylgjast með og grípa til þeirra ráða sem við getum til að styrkja löggjöfina, auka skilvirkni og reyna að koma hlutunum fyrir þannig að málin taki ekki allt of langan tíma í kerfinu. Það er það sem við getum sammælst um í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Flutningsmenn að þessu máli eru, auk mín, hv. þingmenn Róbert Marshall, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Haraldur Einarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.