145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, sem er mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram hér, að við ætlum okkur að halda hlutunum þannig að málsmeðferðin sé sanngjörn. Þegar við settum kærunefndina á fót — við keyrðum þau mál í gegnum allsherjarnefnd og fórum yfir það hvernig við töldum best á þeim tíma að koma málum fyrir varðandi kærunefndina þá vorum við með þau sjónarmið efst á blaði og erum enn. En það er alltaf þannig, þegar maður er að búa til nýtt kerfi eins og þessa nýju kærunefnd, að maður þarf að vera ófeiminn við að segja: Heyrðu, þetta tókst vel hjá okkur, en aðrir hlutir ekki nógu vel.

Við þurfum að útfæra löggjöfina enn frekar að fenginni reynslu og líka í ljósi þess að mun meira álag er á nefndinni en við gerðum ráð fyrir fyrir örfáum mánuðum þegar við vorum að lögfesta þessi ákvæði og nefndin tók til starfa.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við og horfum til varðandi löggjöfina eru að breyta útlendingalögunum sínum nokkrum sinnum á ári. Það er þannig sem við verðum að horfa á hlutina, þegar við erum í ástandi sem þessu, sem er í raun fordæmalaust hröð þróun í málaflokknum, að við séum með opin augun og alltaf klár í að grípa til aðgerða og skoða lögin þegar það á við.