145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands er varðar meðferð stöðugleikaframlags. Álit meiri hlutans og breytingartillögu er að finna á þskj. 909, en ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir aðdraganda málsins og vinnu nefndarinnar.

Nefndinni bárust fjórar umsagnir um málið og nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá Seðlabanka Íslands, Ríkisendurskoðun, umboðsmanni Alþingis og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Aðdragandi frumvarpsins mun vera sá að með lögum nr. 59/2015, um fjármálafyrirtæki, þar sem greitt var fyrir nauðasamningum fallinna fjármálafyrirtækja voru gerðar breytingar á bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka Íslands sem gerðu bankanum mögulegt að taka við verðmætum fyrir hönd ríkissjóðs, en ráðherra væri heimilt að fela sérhæfðum aðila sem starfaði í umboði bankans að annast umsýslu með verðmætin. Á haustmánuðum leiddi vinna fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans í ljós að skýra þyrfti betur í lögum umgjörð, heimildir og skyldur þess sérhæfða aðila sem annast mundi umsýslu verðmætanna. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka til að skýra þetta atriði.

Í frumvarpinu er lagt til að löggjafinn feli Seðlabankanum að stofna félag til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á verðmætum sem renna til ríkissjóðs vegna stöðugleikaframlags slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og ekki eru í formi reiðufjár.

Í umsögn Seðlabankans um frumvarpið kemur hins vegar fram að Seðlabankinn sækist ekki eftir verkefninu og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„… langt í frá augljóst að bankinn setti upp félag til að umsýsla um eignir sem hann ætti ekki. Bent var á að ýmsar aðrar leiðir eru færar við að skapa armslengd frá ríkinu við umsýslu eignanna …“

Önnur tilvitnun síðar í umsögn Seðlabankans:

„… álitamál að [bankinn] skuli setja upp félag og skipa því stjórn sem hefur það að meginmarkmiði að umbreyta eignum sem hann á ekki og ber ekki ábyrgð á.“

Við meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á máli þessu og í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til þá breytingu að í stað þess að Seðlabanki stofni og starfræki félag til að sýsla með verðmætin verði fjármálaráðherra heimilt að stofna félag og skipa því stjórn í sama tilgangi. Með þessu móti verður ábyrgð ráðherrans skýrari á heildarframkvæmd verkefnisins, bæði varðandi eignarhald á félaginu og skipun í stjórn. Með því að hafa umsýsluna í sérstöku félagi fæst hæfileg armslengd frá ríkinu og í stað þess að ráðuneytið komi að sérhverri ákvörðun félagsins er gerður samningur við félagið sem endurspeglar áherslu ríkissjóðs sem eiganda verðmætanna. Fyrir hendi er almenn eigendastefna ríkisins um hlutafélög og sameignarfélög. Verði af stofnun félagsins gildir eigendastefnan um starfsemi þess og starfshætti.

Gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með framkvæmd samningsins við félagið og Ríkisendurskoðun hefur auk þess sjálfstæðar heimildir til skoðunar á félaginu samkvæmt lögum um stofnunina.

Fram kom sú gagnrýni fyrir nefndinni að ráðherra væri heimilt að mæla fyrir um skaðleysi stjórnar og starfsmanna í samningnum við félagið og leggur meiri hlutinn til að sú heimild falli niður. Einnig kom fram gagnrýni á það efni frumvarpsins að stjórnsýslulög giltu ekki um ákvarðanir félagsins. Meiri hlutinn leggur til að það orðalag falli niður enda gilda reglur einkaréttarins um einkahlutafélög, en meiri hlutinn áréttar hins vegar í áliti sínu að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga verði lögð til grundvallar í starfsemi félagsins eftir því sem við á og mælt er fyrir um í hlutaðeigandi lögum og reglum, t.d. hvað varðar kröfur til hæfis stjórnarmanna. Má vísa til II. kafla stjórnsýslulaga.

Lagt er til að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, en í frumvarpinu er lagt til að Bankasýslan fari með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ráðuneytið hefur upplýst hvað þetta varðar að á meðal eigna séu óbeinir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum sem eru hluti af eignum í eignarhaldsfélögum og eignir í fjármálafyrirtækjum sem í raun eru úrvinnslueignir. Í einhverjum tilvikum er um að ræða skráð hlutabréf sem einfalt er að selja á opinn og gagnsæjan hátt á hlutabréfamarkaði. Eðlilegt er að þessir eignarhlutir fylgi öðrum mótteknum eignum og sæti hefðbundinni úrvinnslu og sölu í félaginu. Kemur fram að ýmsir vankantar séu á því að slíkar eignir séu færðar til Bankasýslunnar enda er lagarammi þeirrar stofnunar ekki heppilegur til að taka við hlut ríkisins í eignarhaldsfélögum sem eiga óbeina eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. Í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er auk þess ekki að finna neinar heimildir fyrir Bankasýsluna eða ráðherra til að selja aðra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum en þar eru sérstaklega taldir upp.

Ljóst er að talsverður kostnaður getur fallið til áður en eignir eru seldar, t.d. vegna ráðgjafar í tengslum við mat, auglýsingar, lögfræðiþjónustu og þar fram eftir götunum. Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem vinna þarf úr er lagt til að félaginu verði lagt til talsvert stofnfé, 150 millj. kr., til að mæta útgjöldum. Við slit félagsins renna eignir þess aftur í ríkissjóð.

Það er rétt að árétta að engar eignir af þessu stöðugleikaframlagi renna inn í félagið. Þær eru allar á reikningi ríkissjóðs allan tímann. Það er bara þetta félag sem annast umsýslu eignanna.

Það kemur ekki beinlínis fram í frumvarpinu hvort stjórn félagsins muni telja þrjá eða fimm stjórnarmenn, en meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að ef um þriggja manna stjórn verði að ræða skipi ráðherra félaginu að minnsta kosti tvo varamenn í stjórn þannig að ávallt sé hægt að taka ákvarðanir með fullskipaðri stjórn ef upp koma til dæmis vanhæfistilvik eða fjarvistir stjórnarmanna af öðrum ástæðum. Í drögum að samningi sem liggja fyrir hefur verið komið til móts við þetta sjónarmið á þann hátt að þar er miðað við tvo varamenn og að annar þeirra sitji alla fundi stjórnarinnar.

Í frumvarpinu segir að félagið skuli í störfum sínum leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að þessi sjónarmið séu ávallt höfð til grundvallar, enda er hér um að ræða sömu sjónarmið og finna má í 45. gr. nýsamþykktra laga um opinber fjármál varðandi almenna ráðstöfun ríkisins á eignum.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra árétti í samningi við félagið að stjórnendur þess og starfsmenn viðhafi ávallt vönduð og fagleg vinnubrögð að þessu leyti við öll sín störf þar sem hér sé um að ræða opinberar eignir. Að mati meiri hlutans skiptir miklu að allt ferli við sölu og ráðstöfun félagsins á eignum sé skýrt og ljóst og að ávallt liggi fyrir á hverju einstakar ákvarðanir séu byggðar. Einungis með því verði ferlið gagnsætt í samræmi við frumvarpstextann. Meiri hlutinn telur að ef tvær leiðir standa til boða við ráðstöfun á eignum skuli velja þá leið sem er gagnsærri. Jafnræði verði náð með því að allir sem uppfylli málefnaleg skilyrði eigi kost á því að bjóða í einstakar eignir og að nauðsynlegar upplýsingar um söluferlið séu aðgengilegar fyrir alla mögulega bjóðendur. Varðandi hlutlægni telur nefndin að ganga þurfi rækilega úr skugga um að uppfylltar séu hæfiskröfur til þeirra sem fjalla um einstök mál. Einnig skiptir miklu að allt ferlið í störfum félagsins, t.d. verðmat eða mat á hæfi bjóðenda, byggist á hlutlægum viðmiðum.

Fram kemur að með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að hér sé um að ræða sama viðmið og finna má í 3. gr. laga nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Einnig hefur komið fram að við mat á því hvað telst vera hæsta verð er ávallt miðað við staðgreiðsluverð. Markmiðið er að sjálfsögðu ávallt að hámarka verðmæti eignanna gagnvart ríkissjóði en einnig skal kappkostað að stilla í hóf kostnaði við rekstur félagsins og sölu eignanna.

Um þagnarskyldu gildir sama meginregla og gildir samkvæmt starfsmannalögum, þ.e. að stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk á vegum félagsins skuli gæta þagmælsku um þau atriði sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Lagt er til að nefndum þingsins verði veittar upplýsingar um framgang við úrvinnslu eignanna og lagðar til breytingar sem kveða á um að ráðherra skuli gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis ársfjórðungslega grein fyrir framvindu við úrvinnslu eignanna á grundvelli áætlana og annarra upplýsinga frá félaginu.

Að lokum má geta þess að samkvæmt frumvarpinu skal félaginu slitið þegar það hefur lokið störfum sínum. Velta má fyrir sér hvenær þetta skilyrði, lokið störfum, sé uppfyllt. Fram kom fyrir nefndinni að þær eignir sem félagið fengi til umsýslu gætu numið 64 milljörðum og að reikna mætti með að úrvinnslu um 80% eignanna yrði lokið innan 18 mánaða. Ráðherra mun væntanlega ákveða hvenær félagið hefur lokið verkefninu. Það gerist væntanlega þegar engar eftirstandandi eignir eru þess eðlis eða verðmætin ekki lengur nægileg til að réttlæta áframhaldandi starfsemi félagsins. Ráðherra mundi væntanlega kynna áform um slit félagsins fyrir þeim tveim þingnefndum sem fá ársfjórðungslega greinargerð um úrvinnslu eignanna.

Virðulegi forseti. Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt ásamt þeirri breytingu sem fram kemur á þskj. 909.

Undir álitið rita þann 29. febrúar 2016 Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Brynjar Níelsson, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson og Steinunn Þóra Árnadóttir, með fyrirvara.