145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[18:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um þetta mál. Fyrir það fyrsta styð ég það og tel skynsamlegt að kalla það til nefndar milli 2. og 3. umr. til frekari umræðu af þeim orsökum sem áður voru raktar. Frumvarpið verður sífellt undarlegra í mínum augum alveg frá því að ég sá það fyrst og eftir að við byrjuðum að ræða það í nefndinni. Mér fannst ég skynja það á mörgum öðrum nefndarmönnum, ef ekki öllum, að það væri almenn tilfinning hjá þeim að margt væri — hvað skal segja — vanhugsað eða fljótfærnislegt í frumvarpinu eins og það leit út. Það var til dæmis skrýtið að í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að Seðlabankinn ætti að fara með það félag sem á að koma þessum eignum í verð. Það var undarlegt að fá síðan fulltrúa Seðlabankans á fund og verða þess áskynja að bankinn vildi auðvitað ekkert með það verkefni hafa. Bent var réttilega á að eignirnar væru auðvitað ekki eignir Seðlabankans heldur ríkisins. Mér finnst nærtækast að útskýra þetta sem fljótfærni vegna þess að í meðförum stóra málsins á síðasta þingi þegar verið var að setja lögin um stöðugleikaframlagið, var gert ráð fyrir að eignirnar færu inn í Seðlabankann og var látið þar við sitja. Það er því eðlilegt að menn hafi talið skynsamlegt án mikillar umhugsunar að Seðlabankinn mundi síðan stofna félag og koma þessu í verð öllu saman.

En það þurfti gagnrýna umfjöllun nefndarinnar, ráðuneytisins og Seðlabankans í sameiningu til að komast að því að þetta var auðvitað ekki skynsamlegt. Þetta eru eigur ríkisins og því er miklu betra fyrir skynsamlega ábyrgðarkeðju og ákvarðanir og allt saman að það félag sé þá undir fjármálaráðuneytinu. Ég er mjög ánægður með að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu í samvinnu við ráðuneytið að það væri miklu skynsamlegra að hafa það þar. Þó að Seðlabankinn sé með sína eignasýslu, með eigur sem runnu til hans í kjölfar hrunsins, megum við auðvitað ekki líta svo á að Seðlabankinn eigi að vera eitthvert eignaumsýslufélag. Hann er það auðvitað ekki og á ekki að vera það. Það er mjög skynsamlegt að við stigum ekki það skref hér vegna þess að Seðlabankinn hefur allt öðrum og ríkari skyldum að gegna en að sýsla með eignir ríkissjóðs. Það þurfti nefndin að uppgötva í sameiningu og mjög gott að við komumst að þeirri niðurstöðu að hverfa frá því að setja þetta undir Seðlabankann þó svo að skynsamlegt sé og í rauninni augljóst að peningalegar eignir til varðveislu renni inn í Seðlabankann. Þetta er gott skref og ég fagna því, þar var alla vega gagnrýni minni og margra annarra mætt með því að breyta því.

Annað sem mér þótti mjög skrýtið í upphaflega frumvarpinu voru hin ríku ákvæði um skaðleysi þeirra sem kæmu að umsýslu þessara eigna í félaginu. Ég setti það raunar í samhengi við — eða það var alla vega kenning sem varð nokkuð ljós í huga mínum og mér finnst ég geta rökstutt, að vegna þess að Seðlabankinn vildi í rauninni ekkert með þetta verkefni hafa gerði hann kröfu um að starfsmenn sem færu í það verkefni í félaginu yrðu skaðlausir af gjörðum sínum. Það er óheilbrigt. Það er miklu betra að setja á stofn félag með skýrri ábyrgð og að sá aðili sem sýslar með þessar eignir eigi þær, þ.e. ríkið. Fjármálaráðuneytið ætti að fara með eignaumsýsluna fyrir hönd ríkisins og starfsmennirnir sem að þessu koma og stjórn þessa félags verða ekki skaðlaus umfram sem eðlilegt er. Og að sjálfsögðu á það fólk sem er í þessum erfiðu verkefnum að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Ef það verður uppvíst að saknæmu gáleysi eða jafnvel broti af ásetningi í þá veru, verði hægt að sækja það fólk til saka.

Það var allt saman mjög óljóst með hinu upphaflega skaðleysisákvæði. Nú er það bara á bak og burt, það er farið úr frumvarpinu. Nú eru miklu eðlilegri kringumstæður og umgjörð um þetta allt saman. Það er alveg augljóst að enginn mun þurfa að taka persónulega ábyrgð á félaginu. Ríkisvaldið mun alltaf verja félagið gegn öllum ásökunum um hitt og þetta sem upp kann að koma. En það hefði mér alltaf fundist sjálfsagt mál og heyrði ekki annað á máli gesta en að það væri augljóst og því óþarfi að hafa eitthvert sérstakt og rosalega umfangsmikið skaðleysisákvæði eins og þarna var inni.

Svo var líka sagt að félagið ætti að vera undanþegið stjórnsýslulögum, en við leggjum á það áherslu hér að það skuli grundvallað á stjórnsýslulögum og að upplýsingalög skuli gilda. Eins eru þær betrumbætur gerðar að gert er ráð fyrir upplýsingaskyldu gagnvart Alþingi um starfsemi þessa félags.

Ég fagna öllum þessum breytingum. Svo ég tali fyrir minn hatt þá hefur þeirri gagnrýni verið mætt sem ég hélt helst á lofti í meðförum nefndarinnar, og þá er ég auðvitað á frumvarpinu fyrst gagnrýni minni var mætt.

Við í Bjartri framtíð höfum verið jákvæð gagnvart leið stöðugleikaframlags og samninga við gömlu búin. Við höfum hins vegar lagt á það ríka áherslu í máli okkar að það sé mjög vandasamt verk að taka við öllum þessum eigum sem eru af misjöfnum toga. Sumt eru kröfur, annað eru peningalegar eigur, hlutabréf og alls konar. Sumt er bundið niðurstöðu í dómsmálum. Það þarf að vanda sig alveg gríðarlega. En á einhverjum tímapunkti þá verður maður að treysta fólki. Ég verð nú að viðurkenna að eftir allt sem á undan er gengið í íslensku efnahagslífi er það ekki auðvelt. Það er ekki auðvelt að lýsa því yfir að maður ætli sér að treysta því fólki sem kemur að þessu verki, en ég býst við að maður verði samt að gera það og það sé kannski kominn sá tími í þessu samfélagi eftir allar hremmingarnar að við séum að verða reiðubúin til að treysta því að þeir sem veljast til þess að fara með þessar eigur og koma þeim í verð muni gera það vel, þeir muni vanda sig. En það hjálpar til í þessu verkefni við að treysta þessu fólki að frumvarpið sem við erum hér með er gott og það tók góðum breytingum í meðförum nefndarinnar og er æskileg umgjörð fyrir þetta vandasama verkefni.