145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þessu litla máli um barnalífeyri. Texti frumvarpsins er svo sem einfaldur en ég legg hér til að við 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, bætist nýr málsliður sem orðist svo, með leyfi forseta: „Hið sama gildir ef fyrir liggur að feðrað barn sé móðurlaust af annarri ástæðu en greinir í 1. mgr.“

Í lögum um almannatryggingar er tæmandi upptalning á þeim tilvikum þar sem greiðsla barnalífeyris getur átt sér stað. Í 1. mgr. 20. gr. kemur fram að barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað foreldra er látið eða ef það er örorkulífeyrisþegi. Ef báðir foreldrar eru látnir, eða örorkulífeyrisþegar, greiðist tvöfaldur barnalífeyrir. Í 4. mgr. 20. gr. kemur fram að barnalífeyrir skuli greiddur þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað. Þessu ákvæði er til að mynda beitt í tilvikum þar sem einstæð kona eignast barn með tæknifrjóvgun.

En nú hafa tímarnir aðeins breyst og það eru til tilfelli þar sem barn á aðeins föður, er aðeins feðrað. Það er til dæmis þegar faðir hefur eignast barn með aðstoð staðgöngumóður annars staðar en á Íslandi og í tilvikum þar sem einhleypum manni hefur verið veitt leyfi til ættleiðingar.

Í þessum tilvikum á foreldrið, faðirinn, engan rétt til þess að sækja um barnalífeyri. Látið hefur verið á þetta reyna með því að sækja um til Tryggingastofnunar og óska eftir því að það verði lögjafnað frá ákvæðinu um að þetta eigi jafnframt við um föður en ekki móður eingöngu. Niðurstaða stofnunarinnar var að hafna því vegna þess að texti laganna er skýr.

Það er því ekki nokkur önnur leið til að leiðrétta þetta en að breyta lögunum. Það er gert með þessu frumvarpi. Ætlunin er sú að það tryggi að ef barn er aðeins feðrað sé hægt að sækja um barnalífeyri á grundvelli laganna og það sé þá fullt jafnrétti kynjanna hvað þetta atriði varðar.

Ég veit að þetta er bara þingmannamál. En ég vona samt sem áður svo sannarlega að þingið sjái sér fært að klára þetta mál í gegnum velferðarnefnd. Ég vonast til að velferðarnefnd taki vel í þetta vegna þess að hér er ekki eingöngu um að ræða mál er snýr að jafnrétti heldur líka um ákvæði í lögum sem tekur ekki mið af nútímanum. Við hljótum að vilja laga það þannig að allir séu jafnir fyrir lögunum.