145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[19:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að heyra hv. þm. Birgittu Jónsdóttur lýsa því yfir að þó svo að hún sé ekki flutningsmaður að málinu styðji hún það heils hugar.

Ég vona svo sannarlega að á síðari stigum stígi fleiri hv. þingmenn fram og styðji málið, hvort sem það er í ræðu eða við afgreiðslu þess, því ég vona svo sannarlega að hv. velferðarnefnd taki málið til skoðunar og afgreiði það. Ég mundi auðvitað vilja sjá samninginn fullgiltan í vor. En ég veit ekki, það er kannski fullmikil bjartsýni. En mér fyndist þó alla vega bragur á því að árið 2017, þegar liðin verða tíu ár frá því að við undirrituðum samninginn, verðum við komin með öll þessi mál í lag. Þá verði búið að breyta þeim lögum sem þarf að breyta. Sumum kann mögulega að finnast þetta ekki nógu metnaðarfullt markmið hjá mér. En ég veit ekki, ég held að það sé kannski raunsætt. Þá verði annars vegar búið að breyta öllu því sem þarf að breyta í lagaumhverfinu og koma á skýrum vinnuferlum til þess að þau lög sem við setjum verði alltaf í lagi héðan í frá.

Ég hef áhyggjur af því að við séum hreinlega ekkert að para saman almenn lagafrumvörp við samninginn því við hugsum jú ekki alltaf um þetta. Hversu margir hugsa um fatlað fólk þegar þeir heyra samgönguáætlun nefnda á nafn? Það er í öllum málum, sérstaklega í öllum þessum stóru málum, sem við verðum að muna eftir því að hafa alla þjóðfélagshópa undir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)