145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

354. mál
[19:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðuna um þessa tillögu til þingsályktunar, sem hún mælti fyrir, um skilyrðislausa grunnframfærslu.

Á síðasta þingi bauð hv. 1. flutningsmaður tillögunnar, Halldóra Mogensen, mér að vera einn af meðflutningsmönnunum. Mér fannst málið áhugavert og gaf mér þess vegna talsverðan tíma til að lesa tillögutextann og greinargerðina ítarlega og hugsa málið vel. Ég er svo sannarlega sammála því sem segir í upphafi tillögutextans um það markmið að útrýma fátækt og styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks. Það má segja að þau lykilorð í setningunni hafi verið kveikjan að því að ég gaf málinu tíma og fannst það ígrundunar virði.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi ekki vera meðflutningsmaður. Mig langar að nota ræðutíma minn hér til að rekja hvað það var sem leiddi mig að þeirri niðurstöðu. Ég vona að úr því geti orðið punktar fyrir hv. velferðarnefnd til að hafa til hliðsjónar í vinnu sinni en eftir umræðurnar hér í dag verður tillögunni vísað til þeirrar nefndar.

Fyrst ber að nefna að ég er ósammála því sem kemur fram í greinargerðinni að fátækt á Íslandi sé afleiðing íslenskrar velferðarstefnu. Ekki er þar með sagt að ég sé ekki gagnrýnin á velferðarstefnuna sem hér hefur verið rekin, en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að fátækt og misskipting væri mun meiri ef ekki væri fyrir þá velferðarstefnu sem við höfum haft og það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp, sem og sterka verkalýðshreyfingu sem ég tel að skipti líka máli í því sambandi. En auðvitað er hægt að gera miklu betur. Það er nauðsynlegt að gera miklu betur. En ég er sem sagt skeptísk á að þetta sé leiðin.

Í stuttu máli má segja að ég sé sammála niðurstöðunni sem flutningsmenn tillögunnar komast að, þ.e. ég vil útrýma fátækt og styrkja efnahagslega og félagslega stöðu fólks, en það eru borgaralaunin, eins og þau eru rökstudd í greinargerðinni, sem ég er efins um; ég tel að þau séu ekki rétta leiðin. Ekki er þar með sagt að ég sé á móti því að ýmsir áhugaverðir punktar sem settir eru fram í tillögunni séu skoðaðir. Ég ætla ekki að draga í efa að það sé hverju samfélagi hollt að skoða það kerfi sem það er með. Það hlýtur að vera okkur hollt að skoða velferðarkerfið okkar, ég leggst alls ekki gegn því að farið verði í þá vinnu að skoða það.

Ég er hins vegar mjög efins um þann þátt þar sem talað er um skilyrðislausa grunnframfærslu án tillits til annarra launa. Það leiðir til þess að ríkið greiðir þá öllum jafnt, óháð getu fólks til að afla sér annarra tekna. Ég tel það einfaldlega ekki góða nýtingu á því fjármagni sem eitt samfélag hefur til ráðstöfunar hverju sinni. Nóg getum við nú þráttað um það hér í þessum sal hvernig afla eigi tekna til að reka samfélagið og svo aftur um það hvernig eigi að ráðstafa þeim.

Þó svo að hægt sé að spara einhvers staðar í samlegðaráhrifum af því að þurfa ekki að reka ákveðin kerfi þá mundi ég alla vega vilja sjá útreikninga sem sannfæra mig um eða sýna mér fram á betri afkomu fólks sem hefur ekki aðrar tekjur en grunnframfærsluna sér til framfærslu. Ég hef áhyggjur af því að ef kerfið yrði svona verði fólk sem hefur litla eða enga vinnugetu kerfislægt undirskipað í samfélaginu, vegna þess að það verður alltaf á hinni strípuðu grunnframfærslu meðan aðrir hafa tekjur, launatekjur, fjármagnstekjur, hvaða tekjur sem er, ofan á grunnframfærsluna.

Mig langar í því samhengi að minna á og rifja upp umræðuna sem var hér í þessum sal í tengslum við fjárlög ársins 2016. Þar ræddum við meðal annars um það hvort bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega ættu að fylgja hækkunum og þróun lágmarkslauna. Nokkrir hv. þingmenn settu fram þá skoðun, og þar með talinn hæstv. fjármálaráðherra, að þeir teldu að lágmarkslaun ættu að vera hærri en bætur og færðu meðal annars sem rök fyrir því að annars væri hætta á því að fólk sæktist í að komast á bætur. Við gætum auðvitað komið í veg fyrir það að einhverjir sæki um það að fara á bætur sem ekki þurfa það ef allir fá greiddar bætur, en ég og fleiri hv. þingmenn færðum þá rök fyrir því að við teldum einmitt að ekki ætti að hafa það innskrifað í kerfið að fatlað fólk eða eldra fólk, svo að dæmi sé tekið, ætti að vera kerfislægt undirskipað öðrum. Það er í grunninn það sem mér finnst helst athugavert við tillöguna um skilyrðislausa grunnframfærslu.

Það er kannski einnar messu virði (Forseti hringir.) að skoða málið í hv. velferðarnefnd. Ég hlakka svo sannarlega til að sjá umsagnir sem koma (Forseti hringir.) um málið úr ólíkum áttum. Ég hlakka til að lesa þær og taka svo annan snúning á þetta mál hér við síðari umræðu.