145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

arðgreiðslur tryggingafélaganna.

[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tryggingafélögin hafa hækkað iðgjöld en greiða sér út gríðarlegar fjárhæðir í arð. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvað honum finnist um þetta. Hefur fjármálaráðherra kannað hvort þetta samræmist lögum og reglum eða hvort hann geti gripið til einhverra ráðstafana vegna þessa framferðis tryggingafélaganna? Gengur það upp í huga fjármálaráðherra að gengið sé með þessum hætti um bótasjóðina? Eða telur ráðherrann ekki eðlilegt að gera þá kröfu að annaðhvort renni endurreikningar þeirra aftur til viðskiptavinanna í formi lækkaðra iðgjalda ellegar séu geymdir í sjóðunum til að mæta áföllum sem síðar kunna að verða?

Talandi um áföll: Hefur ríkisvaldið eða bankar þess eða fyrirtæki þurft að afskrifa fjárhæðir á síðustu árum af þessum félögum án þess að eiga nú endurkröfu þegar eignirnar þar eru endurmetnar með þessum hætti?

Enn spyr ég, virðulegur forseti: Hefur hæstv. fjármálaráðherra einhver tök á því að komast að þessu máli í gegnum eignarhald ríkisins, eignarhald banka á vegum ríkisins, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, komist að aðalfundum eða stjórnum þessara félaga eða reynt með einum eða öðrum hætti að hafa áhrif í þá veru að menn greiði sér ekki út hagnað, sem er í tveimur af þremur tilfellum miklu meiri arður en samanlagður hagnaður síðasta árs, og láti þetta annaðhvort renna aftur til viðskiptavinanna ellegar sitja í bótasjóðunum og bíða þeirra áfalla sem við vitum að (Forseti hringir.) munu auðvitað verða í framtíðinni?