145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

arðgreiðslur tryggingafélaganna.

[15:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þó að eigendurnir sitji sannarlega uppi með skömmina þá situr almenningur uppi með reikninginn. Við hljótum að leita allra leiða til að gera betur en það að átelja þetta framferði hér í ræðustól. Það getur ekki gengið, virðulegur forseti, að eitt árið komi ríkið að málefnum þessara félaga vegna þess að þau séu svo mikilvægar stofnanir í íslensku samfélagi að það verði að endurreisa þær, en síðan sé hægt að hola þær að innan skömmu seinna.

Mér skilst, virðulegur forseti, að 2 milljarðar af arðgreiðslum eins af þessum félögum séu fjármagnaðir með lántökum. Það er ekki verið að taka út arð sem er til í sjóði heldur er verið að slá lán út á framtíðina til þess að borga þetta út.

Ég spyr aftur hæstv. fjármálaráðherra: Eigum við hlut í einhverjum af þessum tryggingafélögum? Munum við beita okkur gegn þessum áformum á aðalfundi í því tryggingafélagi?