145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

framkoma tryggingafélaganna.

[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Af því ég á þess kost að ræða við hæstv. fjármálaráðherra á morgun um arðgreiðsluáform tryggingafélaganna í sérstakri umræðu sem hefur verið ákveðin, þá fýsir mig að heyra viðhorf hæstv. forsætisráðherra til sama máls. Það þarf ekki að fara yfir það að þessar arðgreiðslur og arðgreiðsluáform og kaup tryggingafélaganna á eigin bréfum, sem samanlagt leggja sig á um 30 milljarða kr. núna á kjörtímabilinu, undir verndarvæng hæstv. forsætisráðherra má segja með mátulegri ósvífni, hafa hneykslað þjóðina.

Mig fýsir því að vita í fyrsta lagi: Hver eru viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þessa? Í öðru lagi: Hefur ríkisstjórnin rætt þetta mál? Í þriðja lagi: Birtingarmynd hvers konar viðhorfa telur hæstv. forsætisráðherra að þetta sé, að tryggingafélögin, sem að hluta til byggja á skyldutryggingum, lögbundnum tryggingum, skuli svona skömmu eftir hrun telja sig í færum til að komast upp með hegðun af þessu tagi, að sölsa til sín á þremur árum 30 milljarða kr. á sama tíma og þau hækka iðgjöldin á viðskiptavinum sínum? Telur hæstv. forsætisráðherra þetta vera í samræmi við anda laga um vátryggingastarfsemi sem leggur sérstaka áherslu á heilbrigðan og eðlilegan rekstur með hagsmuni vátryggðra og vátryggingataka í huga? Er þetta til marks um það, herra forseti, hæstv. forsætisráðherra, að græðgisvæðingin sé komin aftur á fulla ferð? Að viðhorfin frá 2006, 2007 séu komin í algleyming á nýjan leik?

Að lokum mætti spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi sagt upp tryggingum hjá sínu tryggingafélagi. Það var nefnilega einu sinni forsætisráðherra sem mótmælti hegðun banka sem hneykslaði hann með því að labba með fjölmiðla á eftir sér inn í bankann og tæma sína reikninga þar. Hefur hæstv. ráðherra velt því (Forseti hringir.) fyrir sér að fara í demonstrasjón (Forseti hringir.) og mótmæla með fótunum, (Forseti hringir.) ef svo má að orði komast?