145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

framkoma tryggingafélaganna.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta eru allmargar spurningar en ég skal gera mitt besta til að svara þeim. Ég byrja á síðustu spurningunni.

Þrátt fyrir augljósa aðdáun hv. þingmanns á forvera mínum Davíð Oddssyni og aðferðum hans við að mótmæla þá ætla ég ekki að blanda mínum eigin tryggingum í þessa umræðu, þetta er stærra mál en svo að afstaða mín til tryggingafélags míns eigi að ráða úrslitum. Þetta er mjög stórt mál og mikið áhyggjuefni að mínu mati. Ég get fært mig ofar spurningalistann og farið í næstsíðustu spurninguna: Þetta er alls ekki í anda laga um vátryggingastarfsemi að mínu mati. Og raunar, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan, er það sérstakt áhyggjuefni þegar um er að ræða lögbundnar tryggingar, skyldutryggingar sem menn verða að taka.

Það þurfa að gilda sérstakar reglur um fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki. Tryggingafélög eru á vissan hátt fjármálafyrirtæki þannig að við þurfum alltaf að skoða hvort þörf sé á að breyta reglum til að koma í veg fyrir óæskilega hegðun á þessum markaði. Í þessu tilfelli þurfum við sérstaklega að velta fyrir okkur hvort gerð hafi verið mistök þegar þessi starfsemi, þessi markaður, var endurreistur af ríkinu á sínum tíma og endureinkavæddur.

Af því hv. þingmaður spyr um afstöðu ríkisstjórnarinnar þá er hún sú að þetta sé óeðlilegt af hálfu þessara fyrirtækja, en ég spyr á móti: Hver er afstaða hv. þingmanns, fyrrverandi fjármálaráðherra, til þessa og áhrifa ákvarðana hans og síðustu ríkisstjórnar og þess hvernig þau stóðu að verki þegar þau tóku í rauninni yfir þennan markað að miklu leyti, endurreistu hann og bjuggu til regluverkið sem hinn nýi endurreisti markaður átti að starfa eftir og þetta er afleiðingin? Telur hv. þingmaður að hann geti bent okkur á eitthvað sem hefði mátt betur fara þegar hann var að endurreisa þennan markað, sem getur þá nýst okkur til þess að fást við þetta?