145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

framkoma tryggingafélaganna.

[15:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ef hæstv. forsætisráðherra er að spyrja hvort það hafi verið mistök að láta ekki tryggingafélagið Sjóvá fara á hausinn þá er ég ekki þeirrar skoðunar. Ég bið menn að hugleiða hvað það hefði þýtt fyrir tugþúsundir viðskiptavina þess fyrirtækis sem hefðu misst sínar ógreiddu slysa- og örorkubætur, sem hefðu vaknað upp einn daginn á fyrri hluta árs ótryggðir þrátt fyrir að hafa borgað iðgjöld, tugmilljarða skellur sem að allra mati sem að málinu komu hefði valdið miklu meira tjóni en þó kostaði að aðstoða félagið. Það er ekki sanngjarnt að skella skuldinni af núverandi arðgreiðslum félaganna sem allar hafa komið til á þessu kjörtímabili, vel að merkja, á þá aðgerð. Ríkið kom ekki að nema einu tryggingafélagi, það voru bankar og aðrir slíkir aðilar sem komu þá að einhverju leyti að fjárhagslegri endurskipulagningu annarra félaga. Ég er að spyrja í núinu og í nútímanum. Ef hæstv. forsætisráðherra vill áfram vera á fyrra kjörtímabili þá er það hans val.

Ég endurtek það að þegar lesin eru lög um vátryggingastarfsemi, t.d. 1. og 6. gr. þeirra laga, þá er eins og (Forseti hringir.) að stjórnendur tryggingafélaganna í dag kjósi að taka þar bara eitt orð út úr, það er orðið „hluthafi“, því hagsmunir (Forseti hringir.) vátryggingataka og vátryggðra eru þarna (Forseti hringir.) augljóslega fyrir borð bornir miðað við anda laganna. Má ég benda á danska tryggingafélagið Tryg sem endurgreiddi (Forseti hringir.) viðskiptavinum sínum 16 milljarða kr. vegna góðrar (Forseti hringir.) afkomu? Ætti ekki að ætlast til hins (Forseti hringir.) sama af íslenskum tryggingafélögum?