145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

lög um fóstureyðingar.

[15:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir að hleypa þessari mikilvægu endurskoðun af stokkunum.

Það gleður mig einnig að heyra að hæstv. ráðherra er sammála mér um að við þurfum að endurskoða hugtakanotkun þegar kemur að þeirri viðkvæmu aðgerð sem þungunarrof er.

Ég velti því svolítið fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji að sjálfsákvörðunarréttur kvenna sé algjörlega óskoraður þegar kemur að þungunarrofi eða hvort einhverjar undanþágur þurfi að gilda. Þá er ég sérstaklega að hugsa til þess hvort sjálfsákvörðunarrétturinn eigi að ná til allra kvenna og sömuleiðis með hliðsjón af ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er náttúrlega mjög erfitt og viðkvæmt verkefni sem starfshópurinn þarf að fara í.

Það gleður mig mjög að heyra að þessi vinna sé í farvatninu og að hún muni hefjast sem fyrst.