145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

lög um fóstureyðingar.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að forðast það — í aðdraganda vinnu sem þessarar, þegar við erum að setja af stað vinnu sem kallar á sérþekkingu fagfólks úr ýmsum geirum þjóðfélagsins — að vera með miklar yfirlýsingar sem leiða vinnu væntanlegs starfshóps eins og þessa í ákveðinn farveg. Ég bið hv. þingmann að virða það við mig að ég vil ekki gefa bein fyrirmæli um innihaldið og því síður útkomuna úr þeirri vinnu sem þarna á að fara fram.

Ég vil geta nálgast verkefnið mjög opið og gefið fyrirmæli um að þessi vinna skuli unnin á grundvelli þess hversu gömul löggjöfin er og að mjög víða í samfélaginu eru uppi allt önnur viðhorf, þekking og mat á stöðunni.

Ég nefndi það hér áðan að verkið verður lagt upp af minni hálfu, ég svaraði því ekki í fyrra svari mínu, þar (Forseti hringir.) sem ég mun miða við það að við getum á hausti komanda fengið frumvarp í hendur til að þingið geti fjallað um drög að nýrri löggjöf.