145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

áfengis- og vímuvarnastefna.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir leggi með öðrum hætti út af orðum mínum eða annarra og leggi í þau allt annan skilning en sá sem fram ber. Ég mótmæli því að ég hafi í svari mínu áðan talað gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það er bara ekki rétt, það er langur vegur frá.

Þegar spurt er um afstöðu mína í máli sem þingið er að vinna með, sem er þingmannamál og er ekki einu sinni komið úr nefnd — kallað eftir afstöðu til þess áður en maður er búinn að sjá málið eftir meðferð nefndarinnar — finnst mér hv. þingmenn vera komnir á villigötur í umræðu sinni og vera að reyna að leiða umræðuna á annan veg en ástæða er til.

Ég vil sjá hvaða tökum þingið tekur þetta mál, í hvaða búningi það kemur frá nefndinni, áður en afstaða mín verður opinber.