145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

ummæli ráðherra í fyrirspurnatíma.

[15:51]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er leitt að þurfa að koma í eigin persónu upp í ræðustól Alþingis til að bera af sér sakir í fyrirspurnatíma við ráðherra sem fullyrðir það í ræðustóli Alþingis að það sé háttur þess þingmanns sem hér stendur að rangfæra ummæli manna almennt og yfirleitt. Þetta eru ærumeiðandi ummæli og ekki viðeigandi af hæstv. ráðherra. Honum hefði þá verið nær að færa til dæmis bara eitt dæmi um það til staðfestingar orðum sínum. Við heyrðum öll hvernig ráðherranum féllu orð hér rétt áðan þar sem það varð ekki annað á honum skilið en að ráðherrann teldi ástæðulaust að hamla frekar eða viðhalda þeirri hömlun sem nú er í gangi varðandi sölu á áfengi. Það gengur auðvitað í berhögg við þá orðréttu stefnu sem ég las upp úr áfengis- og tóbaksvarnastefnu sem hann hefur sjálfur samþykkt og gerði það í desember árið 2013.

Ég ber af mér þessar sakir, virðulegi forseti, og ég harma það (Forseti hringir.) að ráðherrann skuli hlaupa í þessa skotgröf þegar beint er til hans málefnalegri fyrirspurn. (BirgJ: Heyr, heyr.)


Tengd mál