145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Nú veit ég ekki, virðulegi forseti, hvort ég get orðið nógu sannfærandi. Ef við miðum við kjörtímabilið í ár þá hefði ekkert veitt af því að við heyrðum meira í þingmönnum sem tilheyra ríkisstjórnarflokkunum. Það hefur ekki farið mikið fyrir þeim í umræðum hér á þinginu. Ég hefði stundum viljað heyra svolítið meira í þeim, ég segi það alveg eins og er.

Vægið liggur fyrst og síðast í atkvæðamuninum. Kannski yrði þetta líka til þess að þegar ráðherrar eru útnefndir verði leitað út fyrir þingflokkana. Við höfðum mjög góða reynslu af því á síðasta kjörtímabili, vorum með ráðherra sem stóðu sig mjög vel í embættum sínum en áttu ekki sæti í þingflokknum. Þetta gæti líka orðið til þess.

Ég hef aldrei fallið fyrir þeim rökum að ríkisstjórnarflokkar og sérstaklega ef um væri að ræða litla þingflokka sem fengju ráðherra — ég meina, þingflokkar yrðu áfram litlir, ráðherrann væri í sinni vinnu og kæmi hér til að fjalla um þau mál sem hann leggur fram en ekki inn í almenna umræðu nema þeir væru kallaðir til.