145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og fram hefur komið þá er sú tillaga sem hér um ræðir afar mild. Hún er ekki mjög róttæk í þá átt sem hv. þingmaður vill fara heldur fremur þannig að við séum nánast að tala um heimild, að þingmaður geti meðan hann gegnir ráðherraembætti ákveðið að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra. Hér væri um það að ræða að hverjum og einum væri í sjálfsvald sett að taka þessa ákvörðun eða þá að viðkomandi stjórnarflokkur gæti tekið þá ákvörðun sem slíkur að hann ætlaði að fara þessa leið fyrir allan sinn hóp.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því hann talar hér um að ráðherrar mundu því aðeins taka þátt í þingstörfum ef þeir yrðu kallaðir til: Sér hv. þingmaður það þá fyrir sér að þátttaka ráðherra í þingstörfum yrði nánast takmörkuð algjörlega við mál viðkomandi ráðherra (Forseti hringir.) og það þegar þingið óskaði eftir viðveru hans eða þátttöku í sérstökum málum, og þá væntanlega þeim málum sem undir hann heyrðu?