145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Í sumum tilvikum er það, en ég gæti bara frá þessum vetri, jafnvel frá síðasta mánuði, nefnt dæmi um frumvörp sem komu hingað og frumvörp sem eru í vinnslu núna þar sem sjálfstæði einstakra þingmanna, einstakra nefndarformanna, veldur því að sorfnar eru burt misfellur mjög í andstöðu við hæstv. ráðherra. Ég minnist þess til dæmis í fyrra þegar við fengum frumvarp sem gerði ráð fyrir fimm gerðum eiginfjárauka í bönkunum, þá flaut þar með eins og hv. þingmaður man ansi sérkennilegt ákvæði um bónusa. Því var fleygt út vegna þess að þingið tók sjálfstæða ákvörðun um það. Fleiri mál af þeim toga gæti ég nefnt.

Ég hyllist að því, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ein skýringin sé sú að stundum koma frumvörpin alveg hræðilega illa gerð hingað til þings. Ég gæti meira að segja nefnt þau ráðuneyti sem ég tel standa sig síst í þeim efnum en kæri mig ekki um það. Í öðrum tilvikum er það vegna þess að hér er þrátt fyrir allt sjálfstætt fólk sem hefur skoðanir. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég hef verið hér þegar láku í gegn vond mál sem öllum fannst vond. Má ég nefna fjölmiðlalögin á sínum tíma, komu hér 2004, sem ég þori að fullyrða að fjarri því hafi meiri hluti þingmanna haft sannfæringu fyrir málinu. Því var þrýst hér í gegn þangað til forseti lýðveldisins tók í taumana.

Svo ber hins að geta að framkvæmdarvaldið og þingið hefur líka verið að reyna að bæta þetta með því að setja reglur um meiri yfirferð yfir þingmálin af hálfu ráðuneytanna og sérstök skrifstofa komin í Stjórnarráðið (Forseti hringir.) til þess að bera saman til dæmis hvort frumvörp standist stjórnarskrá og hvort þau standist önnur lög. Það var ekki alltaf svoleiðis.