145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Lykillinn að þessu er einmitt misbrestir í lagasetningu. Að sjálfsögðu er það líka þannig þegar skapast slík menning á hinu háa Alþingi að breyta þurfi lögum, og vonandi verður ekki aftur snúið um sjálfstæði og styrk þingsins.

Það verður að viðurkennast að ég hef umbreyst hér í kerfiskerlingu og hef gríðarlega mikinn áhuga á því að styrkja kerfið í kringum starfsemi Alþingis. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það eitt að skipta út ráðherrum af þinginu verði nægilega mikil bragarbót til þess að styrkja þingið og efla gegn framkvæmdarvaldinu, og hvort hv. þingmaður telji að gera þurfi eitthvað meira en það, af því að það er tilfinning mín eftir að hafa unnið hér á þessum vinnustað að Alþingi sé ekki nógu öflugt. Ég mundi vilja sjá og styð heils hugar tillögu, sennilega eina málið sem ég hef stutt frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, um að koma hér á fót lagaskrifstofu sem eflir þekkingu og aðgengi að sérfræðingum þegar kemur að lagasetningu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta sé nóg eða hvort þurfi ekki að fara í miklu fleiri breytingar á innviðum starfsemi þingsins, eins og til dæmis með þingskapabreytingum og fleiru til að hér verði öflugt og sjálfstætt þing sem veitir framkvæmdarvaldinu raunverulegt og alvöruaðhald.