145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég held að það sé gott að við ræðum mál af þessu tagi og veltum hinum ýmsu hlutum upp. Þingmaðurinn talar sem landsbyggðarþingmaður úr mjög erfiðu kjördæmi og hefur aðra sýn á starf þingmannsins og allt aðra reynslu en ég sem er þingmaður í Reykv. n. Það er staðreynd.

Ég velti fyrir mér út af því sem þingmaðurinn sagði: Ef við skildum þarna á milli, gæti það þá kannski orðið til þess að þingmenn sem verða ráðherrar færu að meta þingmannsstarfið að verðleikum umfram það sem er í dag? Ráðherradómur hefur verið í úrvalsdeild. Þeir sem ekki verða ráðherrar í ríkisstjórnarflokkum eru í fyrstu deild. Það er þessi goggunarröð sem er gífurleg í stjórnmálunum og meiri en ég hafði nokkurn tíma ímyndað mér. Gæti breyting af þessu tagi kannski orðið til þess að menn litu þingmannsstarfið alvarlegri augum og þætti meira til þess koma en er í dag þegar menn róa að því öllum árum að verða ráðherrar og meta ekki þingmannsstarfið? Gæti þetta orðið til að breyta því eitthvað? Ég velti því fyrir mér.